COVID-19: Lyfjastofnun Evrópu mælir gegn notkun ívermektíns til varnar eða meðferðar COVID-19

Fyrirliggjandi gögn styðja ekki notkun lyfsins sem meðferð eða forvörn gegn sjúkdómnum. Í því samhengi ætti eingöngu að nota lyfið í vönduðum klínískum rannsóknum.

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur metið nýjustu gögn úr rannsóknum um notkun ívermektíns (e. ivermectin) til að meðhöndla eða varna COVID-19.  Niðurstaðan er sú að fyrirliggjandi gögn styðja ekki notkun lyfsins í tengslum við COVID-19 og að einungis skyldi nota lyfið í því samhengi í vönduðum klínískum rannsóknum.

Gegn sníkjudýrum og útbrotum

Á EES svæðinu er ívermektín samþykkt til tvenns konar nota fyrir menn. Annars vegar ívermektíntöflur gegn tilteknum sníkjuormum, hins vegar áburður sem inniheldur ívermektín og er til að meðhöndla húðsjúkdóma á borð við rósroða. Einungis áburðurinn er á markaði á Íslandi. Ívermektín er jafnframt samþykkt á EES svæðinu til nota í mörgum dýrategundum og þá gegn ýmsum innvortis og útvortis sníkjudýrum.

Ívermektínlyf eru ekki samþykkt til meðferðar við eða sem vörn gegn COVID-19  á EES svæðinu, og EMA hafa ekki borist umsóknir þar að lútandi.

Afstaða EMA byggir á rýni fjölmargra rannsókna

Í ljósi umfjöllunar fjölmiðla og útgáfu ýmissa rita um notkun ívermektíns, hefur EMA metið gögn úr nýjustu rannsóknum, m.a. rannsóknum á tilraunastofu, áhorfsrannsóknum (e. observational studies), klínískum rannsóknum og safngreiningum (e. meta-analyses).

Rannsóknir á tilraunastofu leiddu í ljós að ívermektín getur komið í veg fyrir fjölgun SARS-CoV-2 veirunnar sem veldur COVID-19, en í þeim tilvikum voru notaðir miklu stærri skammtar en þeir sem mælt er með við hefðbundna notkun lyfsins. Niðurstöður klínískra rannsókna voru mismunandi. Sumar sýndu engan ávinning af notkun lyfsins, aðrar hugsanlegan ávinning. Flestar rannsóknanna sem EMA rýndi voru smáar í sniðum og höfðu ýmsa aðra annmarka, þar á meðal að notaðar voru mismunandi skammtastærðir lyfsins, sem og önnur lyf samhliða. Niðurstaða EMA er því sú að fyrirliggjandi gögn styðja ekki notkun lyfsins í tengslum við COVID-19, og að einungis skyldi nota það í því samhengi í vönduðum klínískum rannsóknum.

Fleiri aukaverkanir gætu fylgt stærri skömmtum

Ívermektín þolist alla jafna vel í þeim skömmtum sem notaðir eru við samþykktum ábendingum lyfins. Aukaverkanir gætu hins vegar aukist með notkun mun stærri skammta lyfsins, sem myndi þurfa að nota til að ná nægjanlegum styrk lyfsins í lungum COVID-19 sjúklinga til að virka gegn SARS-CoV-2 veirunni. Því er ekki hægt að útiloka eitrunaráhrif yrði ívermektín notað í stærri skömmtum en samþykktir hafa verið hingað til.

Því er að mati EMA ekki hægt að mæla með notkun ívermektíns til meðferðar við COVID-19 eða til varnar sjúkdómnum að svo stöddu. Þörf sé á vönduðum, slembiröðuðum kínískum rannsóknum svo hægt sé draga ályktanir af því hvort lyfið sé virkt og öruggt í því skyni.

Þessi niðurstaða Lyfjastofnunar Evrópu er fengin eftir rýni sérstaks COVID-19 starfshóps stofnunarinnar sem var unnin í ljósi umræðunnar um notkun ívermektíns í baráttunni við COVID-19.

Frétt EMA

Síðast uppfært: 23. mars 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat