Einkunn Lyfjastofnunar hækkar talsvert á milli gæðaúttekta

Á vegum Lyfjastofnunar Evrópu fer fram gæðaúttekt á starfsemi aðildarstofnananna á fjögurra ára fresti. Starfsemi Lyfjastofnunar var metin í fimmta sinn dagana 15.-17. maí sl. Niðurstaðan var með ágætum

Gæðaúttekt Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) fer fram undir yfirumsjón vinnuhóps forstjóra lyfjastofnana á Evrópska efnahagssvæðinu (HMA). Þetta hefur verið fastur liður á fjögurra ára fresti frá árinu 2005 og hefur Lyfjastofnun verið þátttakandi í öll skiptin.

Hvað er BEMA ?

Enskt heiti úttektanna er Benchmarking of European Medicines Agencies (BEMA) og byggir bæði á innra mati hverrar stofnunar, og ytra mati sérþjálfaðra matsmanna frá öðrum lyfjastofnunum en þeirri sem úttektin snýr að. Allir þættir starfseminnar eru metnir út frá sérstökum gæðavísum sem reglulega eru endurskoðaðir. Nefna má skipulag og áætlanir, stjórnunarstíl, gæðastjórnun, stjórnun á hættutímum (e. crisis), og vinnulag í tengslum við vísindalegar ákvarðanir. Einkunnir eru gefnar fyrir hvern flokk á skalanum 0-5.

Betri niðurstaða en í síðustu úttekt

Síðasta úttekt hjá Lyfjastofnun fór fram 2017, en vegna heimsfaraldurs COVID-19 þurfti að fresta nýju mati fram á þetta ár.

Niðurstaða úttektarinnar nú er ánægjuleg. Meðaltalseinkunn allra flokka hækkar úr 3,6 árið 2017 í 4,2 í vor. Hæstar heildareinkunnir flokka voru fyrir stjórnun á hættutímum (5,0) og vinnulag við vísindalegar ákvarðanir (4,7).

Vísindaráðgjöf og eftirlit með fimm stig

Fimm stiga einkunnir fengust einnig í ýmsum undirflokkum úttektarinnar. Þar á meðal var neyðaráætlun, stjórnun á tímum heilsuvár, vinna vegna framboðs lyfja, eftirlit, og upplýsingamiðlun.

Frá vinstri: Marje Zernant frá Eistlandi, Rúna Hauksdóttir Hvannberg forstjóri Lyfjastofnunar, Andrea Winchenback frá Þýskalandi, og Sandra Ramos frá Portúgal
Síðast uppfært: 22. júní 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat