EMA og ECDC telja tímabært að bjóða 60 ára og eldri og viðkvæmum hópum seinni örvunarskammt

Þetta kemur fram í sameiginlegri yfirlýsingu stofnananna

Sóttvarnarstofnun Evrópu (ECDC) og Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hafa uppfært ráðleggingar um notkun á öðrum örvunarskammti af COVID-19 bóluefnum.

Ráðleggingarnar koma í kjölfar vaxandi tíðni COVID-19 sýkinga og sjúkrahúsvista vegna sjúkdómsins og einnig vegna nýrra afbrigða Ómíkrón (BA.4 og BA.5). Þessi gögn gefa til kynna að ný COVID-19 bylgja sé að ryðja sér til rúms í Evrópu.

Í yfirlýsingunni segir að núverandi bóluefni séu talin áhrifarík í að koma í veg fyrir alvarleg veikindi, sjúkrahúsinnlagnir og dauðsföll af völdum sjúkdómsins, þrátt fyrir fjölgun SARS-CoV-2 afbrigða.

Seinni örvunarskammtur fyrir fólk eldra en 60 ára og viðkvæma hópa

Í apríl 2022 ráðlögðu báðar stofnanir að einstaklingar 80 ára og eldri ættu að fá seinni örvunarskammtinn. Vegna nýrrar bylgju í Evrópu og aukinnar tíðni sjúkrahúsvista telja ECDC og EMA að nú sé mikilvægt að fólk á aldrinum 60-79 ára, sem og aðrir í áhættuhópum (e. vulnerable persons), fái einnig seinni örvunarskammtinn. Þessir hópar eru enn í mestri áhættu á að veikjast alvarlega.

Gefa má skammtinn að minnsta kosti fjórum mánuðum eftir að fyrri örvunarskammtur var gefinn. Að mati stofnananna ætti þó að leggja sérstaka áherslu á að gefa þeim seinni örvunarskammt sem fengu fyrri örvunarskammt fyrir meira en sex mánuðum. Sérstaklega er mælst til þessa í löndum þar sem BA.4/5 bylgjan er að hefjast eða hefur ekki náð hámarki.

Ekki almenn þörf fyrir öðrum örvunarskammti

EMA og ECDC telja að á þessari stundu liggi ekki fyrir næg gögn til að styðja notkun seinni örvunarskammts hjá hraustum einstaklingum undir 60 ára. Að sama skapi eru ekki nægar upplýsingar sem styðja notkun seinni örvunarskammts hjá heilbrigðisstarfsfólki nema þeir tilheyri áhættuhópi.

Með tilliti til aðstæðna verða teknar ákvarðanir í hverju landi fyrir sig um hverjir fái seinni örvunarskammt. ECDC og EMA munu halda áfram að fylgjast með virkni bóluefnanna og faraldsfræðilegum gögnum og veita ráðgjöf í samráði við það.

Nánari uplýsingar í frétt á vef EMA 

Síðast uppfært: 13. júlí 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat