Er mikil notkun Íslendinga á methylfenidati byggð á mistúlkun?

Í viðtali við Vilhjálm Hjálmarsson,
varaformann ADHD samtakanna, sem birtist í Mannlífi föstudaginn 4. janúar sl. er
haft eftir honum að starfsmenn landlæknis og nú einnig Lyfjastofnunar mistúlki
sölutölur á lyfjum sem notuð eru við ADHD og vitnar m.a til greinar sem birtist 11. desember sl. á vef Lyfjastofnunar.

Í þeirri grein er hvergi verið að túlka
niðurstöður þeirra gagna sem fyrir liggja um sölu þessara lyfja. Þvert á móti
er varað við mistúlkun og gerð grein fyrir hvað beri að varast við túlkun slíkra
gagna bæði frá ári til árs en einnig milli landa.

Hjá því verður þó ekki litið að árum saman
hafa þessi lyf verið notuð í mun meira mæli á Íslandi en í flestum öðrum löndum
og á það hefur verið bent, m.a. í fréttum á vef Lyfjastofnunar, ekki síst hvað
notkun meðal fullorðinna er meiri hér á landi en t.d. á Norðurlöndum.

Vitað er að þessi lyf ganga kaupum og sölum á
svörtum markaði á Íslandi og um það hafa fallið dómar.

Ekki er dregið í efa mikilvægi þess að þeir
sem sannanlega þurfa á þessum lyfjum að halda fái þau með eðlilegum hætti en
það hlýtur að vera umhugsunarefni að notkun hér sé svo miklu meiri en þekkist í
flestum löndum, enda ekkert sem bendir til þess að ADHD sé algengara á Íslandi
en annarsstaðar.

Í skýrslu starfshóps sem heilbrigðisráðherra
skipaði snemma á síðasta ári kemur m.a. fram að skerpa þurfi á greiningu ADHD
og notuð séu frekar langvirk lyf fremur en skammvirk þar sem þau skammvirku sé
auðveldara að misnota. Þá er þar einnig talað um að efla önnur meðferðarúrræði
við ADHD.

Starfsmenn opinberra stofnana sem hafa það
hlutverk að hafa eftirlit með lyfjanotkun búa yfir mikilli þekkingu á þessu
sviði og eru fullfærir um að leggja mat á samanburð, enda í samstarfi við
systurstofnanir annarra landa og fjölþjóðlegar stofnanir sem hafa samskonar
hlutverk.

Síðast uppfært: 15. janúar 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat