Erindi Lyfjastofnunar flutt á málþingi um lyf án skaða

Erindið fjallaði um eftirfylgni aukaverkanatilkynninga og lærdóm af fjöldabólusetningu gegn COVID-19

Guðrún Stefánsdóttir teymisstjóri lyfjagátarteymis Lyfjastofnunar og Guðrún Selma Steinarsdóttir sérfræðingur í sama teymi, fluttu í síðustu viku erindi um aukaverkanatilkynningar og lærdóm af bólusetningu á málþingi um lyf án skaða. Að málþinginu stóðu Landspítalinn, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Lyfjafræðingafélag Íslands og Lyfjastofnun.

Brugðist við auknum fjölda aukaverkanatilkynninga

Í erindinu kom fram að tilkynningar um aukaverkanir hafi að jafnaði verið frekar fáar á ári síðastliðinn áratug, en að þeim hafi fjölgað mikið síðastliðið ár í kjölfar bólusetningar gegn COVID-19.

Við erum mjög þakklát öllum þeim sem tilkynntu. Það er rosalega mikilvægt, sérsaklega þegar farið er í svona bólusetningarátak, að við vinnum öll saman og að við tilkynnum.

Guðrún Stefánsdóttir, teymisstjóri lyfjagátarteymis

Guðrún sagði frá þeirri vinnu sem fór fram hjá Lyfjastofnun til að mæta fyrirsjáanlegri fjölgun aukaverkanatilkynninga, en ráðist var í umfangsmikla undirbúningsvinnu í þeim tilgangi í árslok 2020. Vinnulagi og verkferlum var breytt, tilkynningareyðublað á vef stofnunarinnar og gagnagrunnur um aukaverkanir voru uppfærð og nýtt starfsfólk þjálfað í úrvinnslu aukaverkanatilkynninga.

Guðrún Stefánsdóttir og Guðrún Selma Steinarsdóttir á málþingi um lyf án skaða

Vinnsla tilkynninga vegna bóluefna sett í forgang

Sagt var frá því hvernig vinnsla tilkynninga tengdra COVID-19 bóluefna var sett í forgang. Þannig hafi tekist að senda inn nýjar og mikilvægar upplýsingar tímanlega í Eudravigilance, gagnagrunn evrópsku lyfjastofnunarinnar (EMA), svo heildstætt mat á öllum tilkynntum aukaverkunum gæti farið fram.

Lyfjagát sýnilegri í kjölfar fjöldabólusetningar

Guðrún Selma kom inn á að í kjölfarið á fjöldabólusetningu gegn COVID-19 hafi lyfjagát orðið mun sýnilegri sem hafi haft í för með sér aukna vitneskju meðal heilbrigðisstarfsfólks og almennings um mikilvægi þess að tilkynna grun um aukaverkun. Þrátt fyrir það megi enn gera betur í að bæta vitneskju um hvað eigi að tilkynna og auka sýnileika lyfjagátar í heilbrigðisgeiranum.

Erindi Guðrúnar Stefánsdóttur og Guðrúnar Selmu Steinarsdóttur hefst þegar liðnar eru 3 klukkustundir, 17 mínútur og 10 sekúndur.

Síðast uppfært: 1. nóvember 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat