Fullorðnir mega fá örvunarskammt af bóluefni Janssen

Örvunarskammtinn á að gefa tveimur mánuðum eftir upphaflega skammtinn

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) hefur komist að þeirri niðurstöðu að gefa megi fullorðnum, 18 ára og eldri, örvunarskammt af bóluefninu COVID-19 Vaccine Janssen tveimur mánuðum eftir upphaflega skammtinn.

Álit nefndarinnar byggir á gögnum sem sýna að örvunarskammtur af COVID-19 Vaccine Janssen, sem var gefinn tveimur mánuðum eftir upphaflegan skammt, jók framleiðslu mótefna gegn SARS-CoV-2 sem er vírusinn sem veldur COVID-19.

Áhættan á mögulegri segamyndun samhliða blóðflagnafæð (TTS) eða öðrum sjaldgæfum aukaverkunum er ekki þekkt. Grannt verður fylgst með öryggi og virkni bóluefnisins áfram, rétt eins og hefur verið til þessa.

Notkun Janssen í kjölfar notkunar annarra bóluefna

CHMP hefur einnig komist að þeirri niðurstöðu að hægt sé að gefa örvunarskammt af bóluefni Janssen eftir fulla bólusetningu, þar sem annað hvort er gefin grunnbólusetning eða tveir skammtar af samþykktum mRNA bóluefnum, Comirnaty (Pfizer/BioNTech) eða Spikevax (Moderna).

EMA mun halda áfram að rýna öll gögn um öryggi og virkni bóluefnis Janssen. Nánari upplýsingar um tilmæli um örvunarskammt af COVID-19 Vaccine Janssen verða aðgengilegar í uppfærðum fylgiseðli og samantekt um eiginleika lyfs.

Ákvarðanir teknar í hverju landi fyrir sig

Ákvörðun um framkvæmd bólusetninga fer fram í hverju landi fyrir sig. Enda eru stjórnvöld á hverjum stað best til þess fallin að meta út frá aðstæðum hver þörfin er.

Nánar í frétt EMA

Síðast uppfært: 16. desember 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat