PRAC er sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja. Nefndin kemur saman mánaðarlega, ellefu mánuði á ári.
Tvær nýlegar áhorfsrannsóknir urðu til þess að PRAC hefur nú tekið til við að meta hvort orsakatengsl gætu hugsanlega verið milli notkunar semaglútíðs og sjaldgæfs augnsjúkdóms. Sjúkdómurinn sem um ræðir nefnist blóðþurrðarsjóntaugarkvilli án slagæðabólgu - NAION (non-arteritic anterior ischemic optic neuropathy). og lýsir sér með minnkuðu blóðflæði til sjóntaugarinnar sem getur þar með skemmt hana og orsakað blindu. -Semaglútíð lyf eru notuð ýmist sem meðferð við sykursýki eða offitu; lyfin sem um ræðir eru Ozempic, Rybelsus og Wegovy.
Lyfjaöryggisnefndin mun nú meta hvort meðferð með semaglútíð-lyfjum auki áhættu á NAION, og aflar til þess allra gagna sem tiltæk eru, þar á meðal úr klínískum rannsóknum, eftirliti eftir markaðssetningu, fræðigreinum o.fl.