Fyrri ákvörðun vegna parasetamóls staðfest

Í september síðastliðnum ráðlagði PRAC, sérfræðinefnd EMA um
eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja, að parasetamól með breyttan losunarhraða yrði tekið af markaði. Breyttur losunarhraði lyfja þýðir að virka efnið skilar sér í
líkamann á lengri tíma en í þeim lyfjum sem ætlað er að verka skömmu eftir
inntöku. Ákvörðun um tilmælin var tekin í ljósi þess hve erfitt getur reynst að
veita rétta meðhöndlun í þeim tilvikum þegar of stór skammtur hefur verið
tekinn. Oft er ekki vitað hvort tekið var fljótverkandi parasetamól eða með
breyttan losunarhraða, en meðferðin er ólík eftir því um hvort er að ræða.  Afleiðingar þessarar óvissu geta verið lifrarskemmdir
og jafnvel dauði og því telur PRAC áhættuna af parasetamóli með breyttum
losunarhraða of mikla.

Tvö lyfjafyrirtæki sem
selja parasetamól með breyttan losunarhraða óskuðu eftir því að ákvörðunin frá
í september yrði endurskoðuð. Því mati er nú lokið og hefur sérfræðinefndin komist að sömu niðurstöðu og áður, að mæla með því að parasetamól af
þessu tagi verði tekið af markaði.

Á Íslandi er eitt lyf á markaði sem inniheldur
parasetamól með breyttan losunarhraða, Paratabs retard 500 mg forðatafla. Í
gildi eru einnig leyfi fyrir önnur lyf sem ráðleggingar PRAC ná til, en þau eru
ekki á markaði.

Síðast uppfært: 6. desember 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat