Fyrsta hluta verðendurskoðunar Lyfjastofnunar lokið

Lyfjastofnun hefur lokið fyrsta hluta verðendurskoðunar 2023. Áætlað er að lyfjakostnaður lækki um 230 milljónir kr. á ársgrundvelli. Sparnaður verður aðallega hjá Landspítala en lyfjanotendur og Sjúkratryggingar Íslands njóta einnig góðs af honum

Þessi hluti verðendurskoðunar náði til:

  • Leyfisskyldra lyfja sem eru ekki með samning við Landspítala
  • Undanþágulyfja með ársveltu í heildsölu yfir 10 milljónir kr. miðað við sölu árið 2022

Hvers vegna verðendurskoðun?

Lyfjastofnun er falið það hlutverk að endurmeta forsendur lyfjaverðs hér á landi, samanborið við sömu lyf viðmiðunarlanda eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti og gera tillögur um breytingar gefi matið tilefni til þess. Viðmiðunarlöndin eru Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland og er lyfjaverð á Íslandi borið saman við lyfjaverð í þessum löndum.

Leyfisskyld lyf

Leyfisskyld lyf eru lyf sem eingöngu er heimilt að nota að undangengnu samþykki lyfjanefndar Landspítala. Yfirleitt er um að ræða kostnaðarsöm eða vandmeðfarin lyf og notkun þeirra krefst jafnan sérfræðiþekkingar og aðkomu heilbrigðisstarfsfólks. Verðsamanburður á leyfisskyldum lyfjum byggist að jafnaði á meðalverði í viðmiðunarlöndunum fjórum að því gefnu að viðkomandi lyf sé með samning við Landspítala. Fyrir lyf án samnings skal verðið ekki vera hærra en lægsta verð lyfsins í viðmiðunarlöndum. Sé velta viðkomandi lyfs lág er heimilt að óska eftir 15% hærra verði umfram viðmið. Ef viðmiðunarverð lyfsins í einu viðmiðunarlandi er umtalsvert undir því verði sem er skráð í öðrum viðmiðunarlöndum er Lyfjastofnun heimilt að miða við næstlægsta verð í viðmiðunarlöndunum.

Undanþágulyf

Undanþágulyf eru lyf sem ekki hafa fengið markaðsleyfi á Íslandi eða eru með markaðsleyfi en hafa ekki verið markaðssett. Nauðsynlegt getur reynst að ávísa undanþágulyfi ef ekki er til markaðssett lyf sem sjúklingur þarf á að halda. Fyrir undanþágulyf gilda mismunandi reglur um verðviðmið eftir því hvort undanþágulyfið er að leysa tímabundinn alvarlegan lyfjaskort/bráða nauðsyn eða hvort það er í reglubundinni sölu. Lyfjastofnun er heimilt að veita talsverða verðívilnun fyrir undanþágulyf í fyrri flokknum en minni í hinum síðari og aðeins ef velta er lág. Sjá nánar í verklagsreglu Lyfjastofnunar um ákvörðun hámarksverðs lyfseðilsskyldra lyfja sem byggir á lyfjalögum nr. 100/2020 og reglugerð nr. 1414/2020.

Niðurstaða 1.hluta verðendurskoðunar 2023

Verðlækkanir í kjölfar verðendurskoðunar í fyrsta hluta taka gildi 1. október. Áætlað er að lyfjakostnaður lækki við það um 230 milljónir kr. á ársgrundvelli. Sparnaður verður aðallega hjá Landspítala en einnig hjá lyfjanotendum og Sjúkratryggingum Íslands. Um er að ræða heildsöluverð án vsk, fjárhæðin miðast við lyfjaverðskrá og lyfjaverðskrárgengi 15. maí 2023.

Lyfjapakkningar sem lækka í verði 1. október 2023

Í samræmi við framkvæmd á heildarverðendurskoðun lyfja er birtur listi yfir lyfjapakkningar sem lækka í verði 1. október 2023. Listinn er birtur með fyrirvara um mögulegar breytingar.

Ef hafa þarf samband við Lyfjastofnun vegna verðendurskoðunar er bent á netfangið [email protected].

Síðast uppfært: 27. september 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat