Gæta þarf að skammtastærð lyfs sem gefið er við liðagigt

Lyfjastofnun Evrópu (EMA)
ráðleggur að ávísaðir skammtar af lyfinu Xeljanz séu ekki umfram ráðlagðan
dagskammt. Xeljanz er einkum er gefið við liðagigt. Ráðleggingin kemur í
kjölfar fyrstu niðurstaðna rannsóknar á sjúklingum með liðagigt, sem benda til
að aukin hætta sé á blóðtappa í lungum og jafnvel dauðsföllum, þegar ráðlagður
dagskammtur, 5 mg tvisvar á dag, er tvöfaldaður. Mælt er með 5 mg tvisvar á dag
við liðagigt og sóragigt, en stærri skammtur sem miðast við 10 mg tvisvar á dag,
er samþykktur sem upphafsmeðferð við sáraristilbólgu.

Haldið verður áfram að
leggja mat á fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar á vegum EMA og skoðað hvort
þörf sé á skýrari reglum um notkun. Meðan matið fer fram verður skammtur liðagigtarsjúklinganna
sem taka þátt í rannsókninni minnkaður úr 10 mg af Xeljanz tvisvar á dag, í 5
mg tvisvar á dag.

Rannsóknin

Þessi rannsókn á lyfinu Xeljanz
er merkt A3921133. Markmið hennar var að meta hvort sjúklingar 50 ára og eldri,
sem fyrir eru í áhættuhópi vegna hjarta og æðasjúkdóma, ættu frekar á hættu að
upp kæmu vandamál tengd hjarta- og æðakerfi við notkun Xeljanz, fremur en lyfja
sem byggja á að hamla virkni bólguvakans TNF.

Ráðleggingar

Meðan niðurstaðna er beðið mælir
EMA með því að heilbrigðisstarfsmenn fylgist grannt með merkjum um blóðtappa í
lungum hjá sjúklingum sem taka Xeljanz. Sjúklingar ættu hvorki að hætta að taka
lyfið né breyta skammtastærð án þess að ráðfæra sig við lækni. Geri einkenni
eins og öndunarerfiðleikar eða brjóstverkur vart við sig, eða ef hóstað er
blóði, ætti að leita til læknis án tafar.

Heilbrigðisstarfsmenn
munu fá skriflegar upplýsingar um fyrstu niðurstöður rannsóknarinnar og þá
meðferð sem mælt er með að svo stöddu.

Fleiri sams konar rannsóknir

Fleiri rannsóknir á Xeljanz í 10
mg skammti tvisvar á dag standa yfir á EES svæðinu. Þátttakendur í slíkum
rannsóknum ættu að ræða við viðkomandi lækni vakni spurningar eða áhyggjur. 

Sjá nánar í bréfi til heilbrigðisstarfsmanna

Síðast uppfært: 21. mars 2019
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat