Jafnlaunaúttekt hjá Lyfjastofnun í september

Niðurstöður leiða í ljós að launamunur milli kynja er innan viðmiðunarmarka jafnréttisáætlunar. Áfram er unnið að því óútskýrður launamunur hverfi

Markmið jafnréttisáætlunar Lyfjastofnunar er að stuðla að jöfnum rétti starfsfólks, og samræmdu og gegnsæju verklagi við launasetningu. Þar er kveðið á um að mæla skuli reglulega hvort um óútskýrðan launamun sé að ræða innan stofnunarinnar og er markmiðið að hann haldist innan við 2%.

Launamunur innan marka

Í ágúst á þessu ári fór fram launagreining þar sem metin voru laun júlímánaðar 2023. Niðurstaða þeirrar greiningar sýndi 1,85% launamun, körlum í hag. Gerð var ítarleg greining innan hvers starfaflokks. Í kjölfarið var launasetningu eins starfsmanns vísað til launaráðs, sem er starfrækt innan stofnunarinnar, til frekari skoðunar.

Unnið að því að jafna laun milli kynja

Við launagreiningar eru störf skoðuð eftir starfaflokkun, þ.e. starfsheitum. Metnir eru þættir sem falla undir grunnröðun starfs, svokallaðir starfstengdir þættir, sem vega 80%. Hins vegar eru persónubundnir þættir, sem vega 20%, s.s. starfsreynsla, viðbótarmenntun, frammistaða og hæfni í starfi.

Fjölmennasti starfaflokkurinn hjá Lyfjastofnun er sá sem kallast „sérfræðingur 3“. Í fyrra sýndu niðurstöður launagreiningar í þeim flokki kynbundinn launamun upp á 1,4% körlum í hag, en í ár er munurinn nú 0,5% konum í hag.

Það skiptir okkur öllu máli að starfsfólk Lyfjastofnunar fái greidd sömu laun fyrir sambærileg störf óháð kyni. Við fögnum þessari góðu niðurstöðu launagreiningarinnar, þó að við stefnum jú alltaf á að niðurstaðan sé að enginn launamunur mælist.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar

Síðast uppfært: 18. október 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat