Niðurstaða kortlagningar Lyfjastofnunar er á þann veg að dreifing lyfja og lækningatækja sé tryggð í öllu landinu á meðan verkfallsaðgerðir stéttarfélags Eflingar standa yfir. Þetta á einnig við ef samningaviðræður deiluaðila valda því að verkfall dregst á langinn.
Kortlagningin fór fram í kjölfar upplýsingabeiðni þjóðaröryggisráðs og heilbrigðisráðuneytis um mat stofnunarinnar á mögulegum afleiðingum verkfalls Eflingar á dreifingu lyfja og lækningatækja í landinu.
Samtal og könnun
Lyfjastofnun hóf samtal og lagði könnun fyrir þau fyrirtæki sem hafa heimild til lyfjainnflutnings, lyfjadreifingar og lyfsölu á smásölustigi þar sem spurt var um fyrirbyggjandi aðgerðir og áhrifamat vegna verkfallsins. Könnunin leiddi m.a. í ljós að undanþágunefnd Eflingar hefur samþykkt flestar undanþágubeiðnir sem snúa að dreifingu lyfja og lækningatækja. Þá hafa aðrar aðgerðir þessara fyrirtækja miðað að því að lágmarka þau áhrif sem verkfall kunni að hafa á dreifingu, m.a. með því að tryggja dreifingu áður en til verkfalls kom.
Varasamt að hamstra lyf
Engin ástæða er til þess að hamstra lyf á meðan verkfallsaðgerðir standa yfir. Ef almenningur kaupir lyf í óhófi getur það leitt til tímabundins lyfjaskorts hjá öðrum einstaklingum með ófyrirséðum afleiðingum.