Lyf án skaða – alþjóðlegt átak um öryggi sjúklinga

Markmið átaksins er að draga úr alvarlegum skaða vegna lyfjamistaka í heilbrigðisþjónustu með því að bæta og samræma verkferla. Lyfjastofnun tekur þátt í átakinu.

Þau frávik sem verða í meðferð sjúklinga í heilbrigðisþjónustu víða um heim má helst rekja til mistaka við umsýslu lyfja. Mest hætta er á mistökum þegar sjúklingur þarfnast margra lyfja hverju sinni (fjöllyfjameðferð), eða þegar hann flyst milli þjónustueininga í heilbrigðiskerfinu. Þar af leiðandi koma mistök frekar niður á eldri sjúklingum en öðrum hópum.

Alþjóðlegt átak

Lyf án skaða er alþjóðlegt gæðaátak sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hóf árið 2017. Hvatt hefur verið til að sem flest aðildarríki stofnunarinnar, 194 að tölu, taki þátt í átakinu. Hérlendis hófst átakið árið 2020, skömmu áður en heimsfaraldur COVID-19 hélt innreið sína, og því fór verkefnið hægt af stað. En nú er vinnan við það hafin fyrir alvöru . Á dögunum var sett upp síða um átaksverkefnið á vef Landspítalans, með upplýsingum bæði á íslensku og ensku.

Verkefnið er í umsjón stýrinefndar undir forystu Landlæknis. Bakhjarlar eru Landlæknisembættið og Heilbrigðisráðuneytið, en helstu samstarfsaðilar eru Landspítalinn, Sjúkrahúsið á Akureyri (SAK), Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu, Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Lyfjafræðingafélag Íslands og Lyfjastofnun.

Góðar hugmyndir nýttar til úrbóta – sérstakar áherslur mótast af þörf

Amelia Samuel, verkefnastjóri á gæðadeild Landspítala er framkvæmdastjóri verkefnisins. Hún segir að á ýmsum stöðum í heilbrigðisþjónustu heimsins hafi verið þróaðir verkferlar með það að markmiði að draga úr líkum á mistökum. Hugmyndin sé að safna saman hugmyndum, nýta það sem best hefur gagnast og miðla víðar. Þátttökulönd móta sér einnig sérstakar áherslur eftir því hvar skórinn kreppir helst. Meðal þess sem sjónum er beint að á Íslandi er að þróa miðlægt rafrænt lyfjakort. Þar verður að finna uppfærðar lyfjaávísanir á einum stað, þannig að yfirsýn yfir lyfjanotkun sjúklings hverju sinni verður aðgengileg öllum læknum landsins. Amelia segir að nú þegar sé prófunarferli hafið innan heilsugæslunnar.

Árangur metinn

Stýrinefnd átaksins hefur skipað ýmsa hópa til að sinna sérstökum verkefnum og innleiða tilteknar breytingar. -Guðrún Stefánsdóttir teymisstjóri lyfjagátarteymis Lyfjastofnunar situr í hópi sem hefur það hlutverk að meta árangur átaksins. Hún segir vinnu verkefnisins fara vel af stað, búið sé að skilgreina hvað sé mikilvægast að leggja áherslu á hér heima, sem er öryggi áhættusamari lyfja, fjöllyfjameðferð, og áðurnefnt lyfjakort. Þá hafi verið sett saman tillaga að gæðavísum til að meta árangur verkefnisins og hefur Vísindasiðanefndveitt samþykki sitt. Í framhaldinu hefur verið sótt um að fá gögn frá fimm ára tímabili, 2017 – 2021, með það í huga að greina stöðuna áður en átakið hefst (baseline) . Þannig sé hægt að meta notagildi og nákvæmni gæðavísanna, sem hópurinn mun endurmeta ef niðurstöður gefa tilefni til.

Reiknað er með að átakið standi yfir í fimm ár.

Síðast uppfært: 13. apríl 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat