Lyfjaskortur er í fæstum tilvikum ástæða þess að undanþágulyfi er ávísað

Þetta er niðurstaða greiningar þriggja lyfjafræðinga sem rannsökuðu undanþágulyfjaumsóknir sem samþykktar voru árin 2020 og 2021, og báru saman við stöðu mála í Svíþjóð. Einn rannsakenda er sérfræðingur hjá Lyfjastofnun

Ef þörf er fyrir lyf sem ekki hefur markaðsleyfi á Íslandi, er beiðni send til Lyfjastofnunar um notkun lyfsins á undanþágu fyrir tiltekinn einstakling.
Undanþágulyf geta þannig verið mikilvægt úrræði þegar um lyfjaskort er að ræða. Vísbendingar hafa þó verið um að fleira en skortur komi til þegar undanþágulyf eru annars vegar.

Rannsóknin

Nú hafa þrír lyfjafræðingar rannsakað undanþágulyfjaumsóknir sem samþykktar voru af Lyfjastofnun árin 2020 og 2021, og birt niðurstöður í nýjasta tölublaði Læknablaðsins. Þetta eru þau Ármey Valdimarsdóttir hjá lyfjafræðideild HÍ, og Anna Bryndís Blöndal, sömuleiðis hjá lyfjafræðideildinni en einnig hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og Hjalti Kristinsson sérfræðingur hjá Lyfjastofnun.

Niðurstöður

Skemmst er frá því að segja að niðurstöður eru sláandi, því ástæður fyrir ávísun undanþágulyfja eru í fæstum tilvikum lyfjaskortur; aðeins í 8,8% tilvika árið 2020, og 7,6% tilvika 2021. Þau fimmtíu lyf sem oftast var ávísað voru að 70% þau sömu bæði árin, og þau fimm lyf sem oftast var ávísað voru nákvæmlega þau sömu. Höfundar telja að draga mætti verulega úr heildarfjölda ávísana undanþágulyfja með markaðssetningu þeirra undanþágulyfja sem er mest ávísað.

Hvað samanburð við Svíþjóð varðar voru á Íslandi samþykktar 49.161 undanþágulyfjaumsóknir árið 2020 og 46.581 árið 2021, en í Svíþjóð voru samþykktar 38.458 umsóknir árið 2020.

Grein lyfjafræðinganna í Læknablaðinu

Síðast uppfært: 13. september 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat