Lyfjastofnun Evrópu (EMA) hefur lagt til breytingar á lyfjaávísunum sýklalyfja sem innihalda vancomycinum klóríð til þess að tryggja viðeigandi notkun í meðferð alvarlegra sýkinga af völdum gram-jákvæðra baktería.
Sem liður í baráttu gegn sýklalyfjaónæmi hefur sérfræðinganefnd EMA um mannalyf (CHMP) yfirfarið fyrirliggjandi gögn um vancomycin sýklalyf og notkun þeirra svo uppfæra megi lyfjaupplýsingar en vancomycin lyf hafa verið í notkun í evrópu síðan á 6. áratug síðustu aldar.
Það var niðurstaða sérfræðinganefndarinnar að notast megi við vancomycin lyf við meðferð alvarlegra sýkinga með inndælingu (infusion) í sjúklingum á öllum aldri. Á þetta einnig við um sýkingar af völdum ýmissa baktería s.s. MRSA (meticillin-resistant Staphyloccus aureus). Vancomycin má einnig nota til að koma í veg fyrir sýkingu í hjartalokum (bacterial edocarditis) og til þess að meðhöndla sýkingar hjá sjúklingum í kviðskilun. Inntaka á vancomycin ætti að einskorðast við meðferð á Clostridium difficile sýkingum (CDI).
Fyrirliggjandi gögn um lyfið styðja ekki notkun á vancomycin við meðferð á staphylococcal enterocolitis (bólga í meltingarvegi af völdum S. aureus) né við notkun þess til þess að hreinsa bakteríur úr meltingarvegi. Af þeim sökum komst sérfræðinganefndin að þeirri niðurstöðu að ekki ætti lengur að ávísa vancomycin fyrir framangreint.
Að auki komst sérfræðinefndin að þeirri niðurstöðu að þegar vancomycin er gefið með inndælingu ætti upphafsskammtur að miðast við aldur og þyngd sjúklings til þess að ná fram tilætlaðri verkun.
Álit sérfræðinefndarinnar verður áframsent til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins sem mun gefa út endanlega ákvörðun.