Á vegum Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) er komin út fyrsta skýrslan sem fjallar um verkefni tveggja nefnda stofnunarinnar í því sem snýr að lyfjatilraunum í dýrum.
Í frétt EMA um þessi mál segir að lokamarkmiðið sé auðvitað að ekki þurfi að nota dýr þegar verið er að þróa og rannsaka lyf. Slíkar rannsóknir séu þó enn mikilvægar í mörgum tilvikum, í því skyni að vernda jafnt heilsu og umhverfið.
Nefndirnar tvær eru annars vegar sérfræðinganefnd um lyf fyrir menn (CHMP) og sérfræðinganefnd um dýralyf (CVMP) og það er vinnuhópur þeirra beggja sem mótar leiðbeinandi reglur um það þegar kanna þarf virkni og öryggi lyfja með tilraunum í dýrum.
Megininntak reglnanna er það sem kennt hefur verið við 3R, út frá lykilorðum þeirra á ensku: replacement – að finna aðrar leiðir en tilraunir í dýrum; reduction – að takamarka slíkar tilraunir svo sem kostur er; og refinement – að draga sem mest úr álagi á dýrin.
Stefnt er að því að gefa út skýrslu af þessu tagi annað hvert ár.