Lyfjaverðskrá gefin út mánaðarlega í stað hálfsmánaðarlega frá áramótum

Lyfjastofnun hefur gefið út lyfjaverðskrá tvisvar í mánuði frá í desember 2021. Nú verður útgáfu svokallaðrar milliverðskrár hætt þar sem fyrirsjánleg er mikil lækkun fjárheimilda Lyfjastofnunar á næsta ári

Fjármagn til Lyfjastofnunar skert

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir að framlag ríkissjóðs til Lyfjastofnunar verði mun lægra en á yfirstandandi ári. Þetta kemur til viðbótar því að fjárframlög til stofnunarinnar hafa einnig verið skert síðustu tvö ár.

Sem liður í hagræðingu vegna skerts fjárframlags er nauðsynlegt að minnka þjónustu sem snýr að lyfjaverðskrá. Síðastliðin tvö ár hefur svokölluð milliverðskrá, sem innihaldið hefur nýjar upplýsingar um lyfjaverðskrárgengi og ný undanþágulyf, verið gefin út um miðjan mánuð. Engin ný markaðssett lyf eða aðrar breytingar hafa verið í milliverðskránni. Þessu fyrirkomulagi við útgáfu milliverðskrár verður hætt um næstu áramót.

Samkvæmt lögum er eitt af hlutverkum Lyfjastofnunar að annast útgáfu og birtingu lyfjaverðskrár, en forsenda þess að lyfseðilsskylt lyf sé markaðssett er að fyrir liggi samþykkt hámarksverð lyfsins og upplýsingar um það birtar í verðskránni. Í reglugerð um verðlagningu lyfja og greiðsluþátttöku kemur m.a. fram að lyfjaverðskrá skuli gefin út eigi sjaldnar en mánaðarlega.

Forgangur við afgreiðslu verðumsókna

Lyfjastofnun mun halda áfram að setja í forgang afgreiðslu verðumsókna þeirra lyfja sem leysa brýna þörf vegna skorts. Verði þannig t.d. þörf fyrir að ávísa og afgreiða nýtt undanþágulyf áður en að birtingu í lyfjaverðskrá kemur, er heildsölum heimilt að upplýsa viðskiptavini sína um verð og aðrar nauðsynlegar upplýsingar, þegar Lyfjastofnun hefur samþykkt hámarksverð.

Í þessum tilvikum er lyfsöluleyfishöfum heimilt að setja upplýsingarnar í afgreiðslukerfi sín um leið og þær eru fáanlegar, óháð birtingu í lyfjaverðskrá.

Aðilar sem sjá um ávísunarkerfi lækna þurfa einnig að taka á móti upplýsingum með öðrum hætti en nú er gert, hvað varðar ný undanþágulyf sem þarf að nota áður en þau birtast í lyfjaverðskrá.

Með þessu móti verður dreifing og afgreiðsla nýrra undanþágulyfja sem leysa vanda vegna birgðaskorts og eru með samþykkt verð, ekki háð birtingu í lyfjaverðskrá. Dreifing og afgreiðsla getur þá hafist um leið og birgðir eru tiltækar.

Síðast uppfært: 29. nóvember 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat