Til þess að koma til móts við óskir hagsmunaaðila áformar Lyfjastofnun að lyfjaverðskrá og undanþáguverðskrá verði gefnar út tvisvar í mánuði með gildistöku 1. dag mánaðar og 15. dag mánaðar. Áætlað er að breytingin taki gildi 1. nóvember nk. og næsta verðskrá þar á eftir verði gefin út 15. nóvember. Birting á nýrri verðskrá verður tveimur virkum dögum fyrir gildistöku.
Allar breytingar munu koma fram í þeim verðskrám sem gefnar eru út bæði í byrjun og um miðjan mánuð nema verðbreytingar, þ.a. verðlækkanir/hækkanir munu einungis taka gildi 1. dag hvers mánaðar og viðkomandi verð gilda í a.m.k. einn mánuð.
Breytingar á umboðsmannaverði
Umboðsmenn geta sent inn umboðsmannaverð til Lyfjastofnunar á bilinu 1. til 20. hvers mánaðar sem er breyting frá fyrra fyrirkomulagi. Það verð sem sent er inn á fyrrgreindu tímabili er birt í næstu lyfjaverðskrá sem tekur gildi 1. dag mánaðar og gildir út mánuðinn þar til verðskrá fyrsta dag næsta mánaðar tekur gildi.
Miðgengi Seðlabankans notað sem lyfjaverðskrárgengi
Áformað er að miðgengi Seðlabankans, að jafnaði fjórum virkum dögum fyrir gildistöku verðskrár, verði notað sem lyfjaverðskrárgengi. Þetta er gert til einföldunar og aukins gagnsæis en Seðlabankinn hefur sem kunnugt er hætt birtingu sk. sölugengis og undanfarið hefur útreikningur á lyfjaverðskrárgengi verið í höndum starfsfólks Lyfjastofnunar.
Þjónustuaðilar fá aðgang að þróunarumhverfi í október
Opnað verður fyrir prófanir á vefþjónustum í þróunarumhverfi fyrir þjónustuaðila þann 1. október nk. Á sama tíma verður lyfjaverðskrá fyrir október gefin út með hefðbundnum hætti.
Ýmsar fleiri breytingar eru fyrirhugaðar sem miða að því að bæta þjónustu við notendur og verða þær nánar kynntar síðar.
Allar ábendingar, athugasemdir eða spurningar við fyrirhugaðar breytingar óskast sendar á netfangið [email protected]