Maífundur PRAC, lyfjaöryggisnefndar EMA

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) fundaði dagana 13.-16. maí sl.

Meðal þess sem sérfræðinganefndin fjallaði um voru niðurstöður stórrar lýðgrundaðrar rannsóknar (e. population-based study), sem beindist að því að meta hvort fólk sem hafði verið útsett fyrir 17-hýdroxýprógesteron kapróat í móðurkviði ætti frekar á hættu að fá krabbamein en aðrir.

Lyfið hefur verið notað til að koma í veg fyrir fósturlát og fyrirburafæðingar, en einnig til að meðhöndla frjósemisvanda og ýmsa sjúkdóma í æxlunarfærum kvenna.

Niðurstaðan úr yfirferð PRAC var sú, að hugsanleg áhætta á krabbameini sé til staðar hjá þeim sem hafa verið útsettir fyrir lyfinu í móðurkviði, þótt lítill fjöldi tilfella og skortur á upplýsingum um aðra áhættuþætti krabbameins, standi í vegi fyrir að hægt sé að staðfesta þessa áhættu.

Virkni lyfsins var einnig skoðuð, m.a. var metin rannsókn þar sem kannaður var árangur af því að koma í veg fyrir fyrirburafæðingar. Í ljós kom að lyfið skilaði engu betri árangri en lyfleysa.

Í ljósi þessa mælir nefndin með því að markaðsleyfi lyfsins á Evrópska efnahagssvæðinu verði fellt niður. Annars konar meðferð við umræddum vanda stendur til boða.

Lyfjastofnun er ekki kunnugt um að lyfið hafi verið í notkun á Íslandi, a.m.k. ekki á síðari árum.

Síðast uppfært: 18. júní 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat