Málstofa um lyf fyrir börn hjá Lyfjastofnun Evrópu

Lyfjastofnun Evrópu (EMA) og Framkvæmdastjórn ESB bjóða áhugasömum að taka þátt í málstofu til að ræða reglur ESB um lyf fyrir börn. Reglurnar gengu í gildi árið 2007 og urðu hvatning til þróunar lyfja ætluðum börnum, einkum hvað varðaði gigtar- og smitsjúkdóma. Þetta kemur fram í skýrslu sem kom út á síðasta ári um árangur þeirra tíu ára sem reglurnar höfðu verið í gildi.

Hins vegar varð ljóst af samantektinni að lítil þróun hafði orðið í lyfjum til að meðhöndla sjúkdóma sem eingöngu hrjá börn, eða þar sem sjúkdómurinn lýsir sér með öðrum hætti í börnum en fullorðnum. Sérstaklega á þetta við um sjaldgæfa sjúkdóma. Því hefur Framkvæmdastjórnin, EMA og sérfræðinefnd EMA um lyf fyrir börn, ákveðið að leggja fram aðgerðaáætlun í því skyni að ýta undir þróunarvinnu slíkra lyfja. Vonast er til að málstofan skili hugmyndum sem nýst gætu í fyrirhugaða áætlun.

Til málstofunnar er boðið hópum sem málið varðar víðs vegar að; aðstandendum sjúklinga, fræðimönnum, heilbrigðisstarfsmönnum og fulltrúum lyfjaiðnaðarins.  Málstofan fer fram í höfuðstöðvum EMA í Lundúnum 20. mars næstkomandi og stendur frá 9:30 til 17:30 að staðartíma. Umsókn um þátttöku má senda á netfangið [email protected]

Frétt EMA um málstofuna

Síðast uppfært: 9. febrúar 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat