Meira af lyfjanotkun háskólanema

Könnunin um lyfjanotkun háskólanema sem sagt var frá í síðustu viku geymir áhugaverðar vísbendingar. Eins og fram kom gafst nokkur þúsund nemum í grunnnámi við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri færi á að svara könnuninni, svör urðu 1.145 talsins. Langflestir svarenda voru úr HÍ.

Ekki tiltökumál að nota ávísanaskyld lyf ætluð öðrum
Áhugavert er hve margir telja sér óhætt að nota ávísanaskyld lyf fengin með óhefðbundnum hætti. Fimmtungur hafði notað lyf sem ávísað hafði verið á einhvern annan, en rösklega þrír af hverjum fjórum svarendum könnuðust við að hafa heyrt af slíkri notkun.

Ástæður
Þegar spurt var um ástæður þess að viðkomandi notaði ávísanaskyld lyf ætluð öðrum var hægt að merkja við nokkra möguleika. Hátt í 30% merktu við hvorn möguleikann, að bæta námsárangur almennt, og lyfjanotkun við undirbúning prófa. Meira en helmingur gat síðan um aðrar ástæður en þær sem tengdust náminu. Þar voru aðallega nefndir verkir, en einnig svefnvandamál og kvíði. Ríflega einn af hverjum fimm þessara svarenda höfðu notað ávísanaskyld lyf fengin með óhefðbundnum hætti í tengslum við skemmtanir.

Hvaðan komu lyfin ?
Í ljósi umræðu um hve auðvelt sé að nálgast og verða sér úti um ávísanaskyld lyf eftir óhefðbundnum leiðum er áhugavert að skoða svör stúdentanna um hvar þeir fengu umrædd lyf. Þar vekur sérstaka athygli að tæp 40% þeirra sem slík lyf notuðu sögðust hafa fengið þau frá foreldrum. Um 14% nefna skólafélaga, enn færri vinnufélaga. Í heildina segist tæpur helmingur þessara svarenda hafa fengið lyf frá einhverjum sem hafði fengið því ávísað. Um 15% merktu í þesu samhengi við óþekktan söluaðila, eða díler, fáein prósent nefndu netið.

 

Síðast uppfært: 7. september 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat