Mönnun apóteka – breytt stjórnsýsluframkvæmd

Lyfjastofnun tilkynnir hér með um breytta stjórnsýsluframkvæmd á sviði apóteka. Frá og með 1. janúar 2020 verður dreifibréf Lyfjastofnunar 03/2008/LS fellt úr gildi og frá sama degi öðlast gildi nýtt dreifibréf Lyfjastofnunar 01/2020/LST .

Ástæður breytinga þessa má rekja m.a. til eftirfarandi:

  • Frumvarp heilbrigðisráðherra til nýrra lyfjalaga, þar sem finna má sömu megin reglu um tvo lyfjafræðinga á vakt í apótekum og 31. gr. lyfjalaga, nr. 93/1994, með síðari breytingum, hefur að geyma,
  • Þingsályktun um lyfjastefnu til ársins 2022 þar sem m.a. lögð er áhersla á kröfur um mikilvægi faglegrar þjónustu lyfjafræðinga í lyfjabúðum.
  • Mikillar fjölgunar apóteka undanfarin tvö ár þar sem mönnun er í flestum tilvikum þannig háttað að aðeins er einn lyfjafræðingur að störfum lengstan hluta af opnunartíma viðkomandi apóteks.
  • Eindregin krafa Lyfjafræðingafélags Íslands (LFÍ) um endurskoðun á framkvæmd vegna mönnunar lyfjafræðinga í apótekum, m.a. vegna aukins lyfjaskorts sem kallar að mati LFÍ á aukna vinnu lyfjafræðinga við afgreiðslu lyfja.

Hafa ber í huga að í apótekum bera lyfjafræðingar einir fagstétta ábyrgð á afgreiðslu og afhendingu lyfja og hafa eftirlit með því að rétt sé afgreitt samkvæmt lyfjaávísunum. Auk þess er þeim ætlað að veita neytendum og heilbrigðisstarfsmönnum upplýsingar um lyf, notkun þeirra og geymslu. Þá er þeim jafnframt skylt að stuðla að réttri lyfjanotkun og veita lyfjafræðilega umsjá í samvinnu við aðrar stéttir heilbrigðisstarfsmanna með það að markmiði að draga úr líkum á sjúkdómum og auka almennt heilbrigði. Þessu viðamikla ábyrgðarhlutverki er ekki unnt að sinna á hlaupum. Nauðsynlegt er að starfsumhverfi lyfjafræðinga sé þannig úr garði gert að þeir hafi vinnufrið til að sinna þessum mikilvægu verkefnum.

Lyfjastofnun mun á næstu vikum birta frekara efni og upplýsingar í tengslum við nýja dreifibréfið, m.a. frekari skýringar á þeim ástæðum sem liggja að baki breyttri stjórnsýsluframkvæmd.

Síðast uppfært: 26. maí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat