Lyfjastofnun Evrópu birti þann 16. október sl. 7. ársskýrslu ESVAC um sölu sýklalyfja handa dýrum, fyrir árið 2015. Að þessu sinni liggja fyrir tölur frá 29 ESB/EES ríkjum auk Sviss, þ.e. einu ríki fleiri en árið 2014.
Í þeim 25 ríkjum sem tekið hafa þátt í ESVAC frá 2011 hefur sala sýklalyfja dregist saman um 13,4% reiknað sem mg/PCU*.
Sala sýklalyfja hér á landi, handa dýrum sem gefa af sér afurðir til manneldis, minnkaði lítillega milli áranna 2014 og 2015, reiknað sem mg/PCU. Fróðlegt er að hér á landi eru ekki notuð handa dýrum nein sýklalyf í flokki amfenikóla, makrólíða og pólýmyxína. Vonandi verður svo áfram. Jafnframt er mjög lítið notað af sýklalyfjum í flokki cefalósporína og í flokki flúorókínólóna og notkunin hefur farið minnkandi. Vonandi verður svo áfram.
Gagnvirkur gagnagrunnur ESVAC er opinn öllum. Mikilvægt er að gæta varúðar í öllum samanburði og ígrunda það sem liggur að baki honum hverju sinni.
Eldri ESVAC skýrslur eruaðgengilegar á vef EMA.
* PCU (Population correction unit): Áætlaður þungi búfjár og sláturdýra. Sjá nánar í kafla 1.4 í ESVAC skýrslunni.