Ný lyf á markað í desember

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. desember 2021

Ný lyf á markað 1. desember 2021

Ný lyf fyrir menn

Biphozyl, blóðskilunar-/blóðsíunarlausn. Lyfið kemur í tveggja hólfa poka og innhalda hólfin magnesíumklóríðhexahýdrat annars vegar og natríumklóríð, natríumvetniskarbónat, kalíumklóríð og tvínatríumfosfattvíhýdrat hins vegar. Fullbúin lausn fæst þegar innihaldi hólfanna tveggja er blandað saman með því að rjúfa afrífanlega innsiglið. Lyfið er notað sem uppbótar- og skilunarvökvi við meðferð á bráðum nýrnaskaða með samfelldri skilunarmeðferð (CRRT). Biphozyl er notað eftir bráðafasann þegar skilunarmeðferð er hafin og pH, kalíum og fosfat hafa náð eðlilegri þéttni að nýju. Biphozyl er einnig notað þegar aðrar jafnalausnir eru til staðar og við blóðþynningu með sítrati. Ennfremur er Biphozyl notað hjá sjúklingum með blóðkalsíumhækkun. Lyfið má einnig nota við lyfjaeitrunum eða öðrum eitrunum þegar efnin eru skilunar- eða síunarhæf. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess. Lyfið er sjúkrahúslyf og lyfseðilskylt.

Isturisa, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 1 mg af osilodrostati. Isturisa er ætlað til meðferðar við innrænu Cushings heilkenni hjá fullorðnum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í efnaskipta- og innkirtlalækningum. Lyfið er frumlyf og lyfseðilsskylt.

Regiocit, blóðsíunarlausn. Lausnin inniheldur natríumklóríð og natríumsítrat. Lyfið er ætlað sem uppbótarlausn fyrir samfellda skilunarmeðferð (CRRT) þar sem notuð er blóðþynning með sítrati. Sítrat hentar vel þegar altæk (e. systemic) segavarnarmeðferð með heparíni er ekki möguleg, til dæmis hjá sjúklingum með aukna hættu á blæðingum. Lyfið er ætlað öllum aldurshópum, en hjá börnum er kveðið á um að búnaðurinn verði lagaður að þyngd barnsins. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess. Lyfið er sjúkrahúslyf og lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 15. desember 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat