Ný lyf á markað í febrúar 2023

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. febrúar 2023

Ný lyf á markað í febrúar

Ný lyf fyrir menn

Fesoterodine Medical Valley, forðatafla. Lyfið er fáanlegt í tveimur styrkleikum (4 mg og 8 mg). Hver forðatafla inniheldur annað hvort 4 mg eða 8 mg af fesóteródín fumarati sem samsvarar 3,1 mg eða 6,2 mg af fesóteródíni. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum á einkennum sem fram geta komið hjá sjúklingum með ofvirka þvagblöðru (overactive bladder syndrome) svo sem aukin tíðni þvagláta og/eða bráð þörf fyrir þvaglát og/eða bráðaþvagleki. Fesoterodine Medical Valley er samheitalyf lyfsins Toviaz og er lyfseðilsskylt.

Mildison Lipid (Heilsa), krem. Lyfið er fáanlegt í tveimur pakkningastærðum (15 g og 30 g) og inniheldur 1 g af kremi 10 mg af Hydrocortison sem er vægur barksteri. Lyfið er ætlað við exemi sem stafar af t.d. hreinsivörum, skordýrabiti og sólbruna. Heimilt er að selja takmarkað magn Mildison Lipid (Heilsa) í lausasölu, mest 30 g fyrir einstakling.

Vydura, frostþurrkuð tafla. Hver frostþurrkuð tafla inniheldur 75 mg af rímegepanti. Lyfið er ætlað sem bráðameðferð hjá fullorðnum við mígreni með og án flogboða (aura) og sem fyrirbyggjandi meðferð við mígrenisköstum hjá fullorðnum sem hafa fengið að minnsta kosti 4 mígrenisköst á mánuði. Vydura er frumlyf og lyfseðilsskylt. ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila.

Xerodent, munnsogstafla. Hver tafla inniheldur 28,6 mg af eplasýru og natríumflúoríð samsvarandi 0,25 mg af flúor. Lyfið er hugsað til meðhöndlunar einkenna vegna munnþurrks og sem fyrirbyggjandi meðferð við tannskemmdum hjá sjúklingum með munnþurrk. Xerodent er samheitalyf og er selt í lausasölu.

Síðast uppfært: 10. febrúar 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat