Ný lyf á markað í febrúar

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. febrúar 2022

Ný lyf á markað 1. febrúar 2022

Ný lyf fyrir menn

Cefuroxim Navamedic, stungulyf, lausn. Hvert hettuglas inniheldur cefúroxímnatríum sem samsvarar 250 mg af cefúroxími. Lyfið er ætlað til meðferðar við ýmsum sýkingum hjá fullorðnum og börnum, þ.m.t. nýburum (frá fæðingu). Dæmi um slíkar sýkingar eru lungnabólga sem hefur smitast utan sjúkrahúss, bráð versnun langvinnrar berkjubólgu, erfiðar þvagfærasýkingar þ.m.t. nýrna- og skjóðubólgu, sýkingar í mjúkvefjum (húðbeðsbólga, heimakoma og sýkingar í sárum), sýkingar í kviðarholi og til varnar gegn sýkingum við aðgerðum í meltingarvegi (þ.m.t. í vélinda) eins og bæklunaraðgerðum, hjarta- og æðaaðgerðum og aðgerðum á kynfærum kvenna (þ.m.t. keisaraskurðir). Lyfið er samheitalyf lyfsins Claforan og er lyfseðilskylt.

Kaleorid, forðatöflur. Hver tafla inniheldur 750 mg af kalíumklóríð. Lyfið er notað til að bregðast við kalíumskorti og sem fyrirbyggjandi meðferð við blóðkalíumlækkun í tengslum við meðferð með þvagræsilyfjum. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess. Lyfið er lausasölulyf.

Kyleena, leginnlegg. Leginnleggið inniheldur 19.5 mg af levónorgestreli.
Lyfið er getnaðarvörn ætluð til uppsetningar í legholi og verkar í allt að 5 ár. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Phesgo, stungulyf, lausn. Lyfið er fáanlegt í tveim styrkleikum.
Phesgo 600 mg/600 mg:
Hvert hettuglas með 10 ml af lausn inniheldur 600 mg af pertuzumabi og 600 mg trastuzumabi. Hver ml af lausn inniheldur 60 mg af pertuzumabi og 60 mg af trastuzumabi.
Phesgo 1200 mg/600 mg:
Hvert hettuglas með 15 ml af lausn inniheldur 1200 mg af pertuzumabi og 600 mg af trastuzumabi. Hver ml af lausn inniheldur 80 mg af pertuzumabi og 40 mg af trastuzumabi.

Lyfið er ætlað til notkunar gegn brjóstakrabbameini á fyrri stigum ásamt krabbameinslyfjum sem undirbúningsmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með HER2-jákvætt, langt gengið en staðbundið brjóstakrabbamein og bólgu, eða brjóstakrabbamein á fyrri stigum sem líklegt er að taki sig upp aftur. Auk þess er lyfið ætlað sem viðbótarmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með HER2-jákvætt brjóstakrabbamein á fyrri stigum, sem eru í mikill hættu á að sjúkdómurinn taki sig upp á ný. Lyfið er einnig ætlað til notkunar ásamt docetaxeli hjá fullorðnum sjúklingum með HER2-jákvætt brjóstakrabbamein með meinvörpum eða staðbundið, endurkomið og óskurðtækt, sem ekki hafa áður fengið and-HER2 meðferð eða meðferð með krabbameinslyfjum gegn brjóstakrabbameini með meinvörpum.
Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og lyfseðilskylt.

Septabene citron og honning, munnsogstöflur. Hver munnsogstafla inniheldur 3 mg af benzýdamínhýdróklóríð og 1 mg af cetýlpýridíníumklóríð. Lyfið er ætlað fullorðnum, unglingum og börnum eldri en 6 ára, til staðbundinnar og stuttrar bólgueyðandi, verkjastillandi og sótthreinsandi meðferðar við ertingu í hálsi, munni og tannholdi. Lyfið er samheitalyf lyfsins Gola Action og er lausasölulyf.

Septabene, munnholsúði, lausn. Hver ml af munnholsúða, lausn inniheldur 1,5 mg af benzýdamínhýdróklóríð og 5 mg af cetýlpýrídíníumklóríð. Lyfið er ætlað fullorðnum, unglingum og börnum eldri en 6 ára, til staðbundinnar og stuttrar bólgueyðandi, verkjastillandi og sótthreinsandi meðferðar við ertingu í hálsi, munni og tannholdi og fyrir og eftir tanndrátt. Lyfið er samheitalyf lyfsins Gola Action og er lausasölulyf.

Nýtt lyfjaform

Zykadia, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 150 mg af ceritinibi. Lyfið er ætlað til einlyfjameðferðar sem fyrsti valkostur lyfjameðferðar hjá fullorðnum sjúklingum með ALK (e. anaplastic lymphoma kinase)-jákvætt, langt gengið lungnakrabbamein sem ekki er af smáfrumugerð (non-small cell lung cancer). Einnig er lyfið ætlað sem einlyfjameðferð hjá fullorðnum sjúklingum með jákvætt ALK, langt gengið lungnakrabbamein sem ekki er af smáfrumugerð sem áður hafa fengið meðferð með crizotinibi. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilskylt.

Síðast uppfært: 23. mars 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat