Ný lyf á markað í júlí

Ný lyf á markað 1. júlí 2020

Nýtt lyf

Metformin EQL, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 500 mg af metformínhýdróklóríði, sem samsvarar 390 mg af metformini. Lyfið er ætlað til meðferðar við sykursýki af tegund 2, einkum hjá sjúklingum með offitu, þegar mataræði og hreyfing eingöngu nægir ekki til að hafa góða stjórn á blóðsykri. Lyfið er samheitalyf lyfsins Glucophage og er lyfseðilsskylt.

Ný lyfjaform

AJOVY,
stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Einn áfylltur lyfjapenni inniheldur 225 mg af fremanezúmabi. Fremanezúmab er mannaðlagað einstofna mótefni, sem framleitt er í frumum úr eggjastokkum kínverska hamstra (CHO) með raðbrigða DNA tækni. Lyfið er ætlað sem fyrirbyggjandi meðferð við mígreni hjá fullorðnum með minnst fjóra mígrenidaga í mánuði. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Nucala,
Stungulyfsstofn, lausn. Hver 1 ml áfylltur lyfjapenni inniheldur 100 mg af mepolizumabi. Mepolizumab er einstofna mannaðlagað mótefni framleitt í eggjastokkafrumum kínverskra hamstra með raðbrigðaerfðatækni. Lyfið er ætlað sem viðbótarmeðferð við alvarlegum, þrálátum rauðkyrningaastma hjá fullorðnum, unglingum og börnum frá sex ára aldri. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í lungnalækningum, ofnæmislækningum og ónæmisfræði.

Nýir styrkleikar

Atomoxetin Medical Valley, hörð hylki. Hvert hart hylki inniheldur 100 mg af atomoxetini sem 114,28 mg atómoxetin hýdróklóríð. Lyfið er ætlað til meðhöndlunar á athyglisbresti með ofvirkni hjá börnum, 6 ára og eldri, hjá unglingum og hjá fullorðnum sem hluti af heildarmeðferð. Lyfið er samheitalyf lyfsins Strattera og er lyfseðilsskylt.

Berinert,
2000 a.e. stungulyfsstofn og leysir, lausn. Berinert 2000 a.e. inniheldur 2000 a.e. af C1-esterasahemli (manna) í hverju hettuglasi. Lyfið er ætlað til fyrirbyggjandi meðferðar gegn köstum arfgengs ofsabjúgs (e. hereditary angioedema) hjá fullorðnum og unglingum með skort á C1- esterasahemli. Lyfið er frumlyf og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í ónæmisfræði.

Kanjinti,
stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Eitt hettuglas inniheldur 420 mg af trastuzúmabi, mannaðlöguðu IgG1 einstofna mótefni sem framleitt er í eggjastokkum kínverskra hamstra. Lyfið er ætlað sem meðferð við HER2 jákvæðu brjóstakrabbameini með meinvörpum, HER2 jákvæðu brjóstakrabbameini án meinvarpa og HER2 jákvæðu magakrabbameini með meinvörpum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er líftæknilyfshliðstæða lyfsins Herceptin. Lyfið er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Tadalafil Krka, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 5 mg af tadalafili. Lyfið inniheldur laktósa, ef óþol fyrir einhverjum sykrum hefur verið staðfest, skal hafa samband við lækni áður en lyfið er tekið inn. Lyfið er ætlað til meðferðar við ristruflunum hjá fullorðnum karlmönnum og til meðferðar við einkennum góðkynja stækkunar á blöðruhálskirtli hjá fullorðnum karlmönnum. Lyfið er ekki ætlað konum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Cialis og er lyfseðilsskylt.

Tagrisso,
filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 40 mg osimertinib sem mesýlat. Tagrisso sem einlyfjameðferð er ætlað til meðferðar: -sem fyrstavalsmeðferð hjá fullorðnum sjúklingum með lungnakrabbamein, sem ekki er af smáfrumugerð, sem er staðbundið langt gengið eða með meinvörpum með virkjandi stökkbreytingar í vaxtarþáttarviðtaka í húðþekju (EGFR). -hjá fullorðnum sjúklingum með lungnakrabbamein, sem ekki er af smáfrumugerð, sem er staðbundið langt gengið eða með meinvörpum og með T790M stökkbreytingu í EGFR. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og ávísun þess er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum.

Síðast uppfært: 29. október 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat