Ný lyf á markað í maí

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. maí

Ný lyf á markað 1. maí 2021

Ný lyf fyrir menn

Finasteride Medical Valley, filmuhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 5 mg af fínasteríði. Lyfið er ætlað til meðferðar við góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli hjá sjúklingum með stækkaðan blöðruhálskirtil til að: -valda rýrnun á stækkuðum blöðruhálskirtli, bæta flæði þvags og draga úr einkennum tengdum góðkynja stækkun blöðruhálskirtils; -draga úr tíðni bráðrar þvagteppu og þörf fyrir skurðaðgerðir þ.m.t. aðgerð á blöðruhálskirtli í gegnum þvagrás (TURP) og brottnámi blöðruhálskirtils. Lyfið er samheitalyf lyfsins Proscar og er lyfseðilsskylt.

Piqray, filmuhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 50 mg, 150 mg eða 200 mb af alpelisib. Lyfið er ætlað ásamt fulvestranti til meðferðar hjá konum eftir tíðahvörf og körlum, með hormónaviðtaka (HR)-jákvætt, manna húðþekjuvaxtarþáttaviðtaka 2 (HER2)-neikvætt, staðbundið langt gengið brjóstakrabbamein eða með meinvörpum, með PIK3CA stökkbreytingu, þegar sjúkdómurinn hefur versnað eftir einlyfjameðferð sem byggist á verkun á innkirtla. ▼Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er frumlyf og lyfseðilsskylt.

Salmeterol/Fluticasone Neutec, innöndunarduft, afmældir skammtar.

50 míkróg/100 míkróg/skammt og 50 míkróg/250 míkróg/skammt:

Við hverja einstaka innöndun Salmeterol/Fluticasone Neutec 50 míkróg/100 míkróg/skammt fæst gefinn skammtur sem er 47 míkróg af salmeteróli og 92 míkróg af flútíkasónprópíónati. Við hverja einstaka innöndun Salmeterol/Fluticasone Neutec 50 míkróg/250 míkróg/skammt fæst gefinn skammtur sem er 45 míkróg af salmeteróli og 229 míkróg af flútíkasónprópíónati. Lyfið er ætlað handa fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri til samfelldrar meðferðar gegn astma, þar sem notkun samsetts lyfs (langverkandi beta2-örva og barkstera til innöndunar) á við.

50 míkróg/500 míkróg/skammt:

Við hverja einstaka innöndun fæst gefinn skammtur sem er 43 míkróg af salmeteróli og 432 míkróg af flútíkasónprópíónati. Lyfið er ætlað handa fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri til samfelldrar meðferðar gegn astma, þar sem notkun samsetts lyfs (langverkandi beta2-örva og barkstera til innöndunar) á við. Einnig er lyfið ætlað til meðferðar á einkennum hjá sjúklingum með langvinna lungnateppu með FEV1 < 60% af áætluðu eðlilegu gildi (fyrir gjöf berkjuvíkkandi lyfs) sem hafa umtalsverð einkenni þrátt fyrir reglulega meðferð með berkjuvíkkandi lyfjum og sögu um endurtekna versnun.

Lyfið er blendingslyf og er markaðsleyfi þess byggt að hluta á lyfinu Seretide Diskus. Lyfið er lyfseðilsskylt.

SmofKabiven extra Nitrogen, innrennslislyf, fleyti. Lyfið er í þriggja hólfa poka. Í hólfunum þremur eru amínósýrulausn 10% með blóðsöltum, glúkósi 42% og fitufleyti 20%. Lyfið er ætlað sem næring í æð fyrir fullorðna og börn 2 ára og eldri þegar næring um munn eða þarma er ekki möguleg, ófullnægjandi eða frábending. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess. Lyfið er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 27. maí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat