Ný lyf fyrir menn
Capecitabine medac, filmhúðaðar töflur. Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 500 mg af capecítabíni. Lyfið er ætlað til meðferðar við mismunandi tegundum krabbameins, m.a. krabbameini í ristli, endaþarmi, maga og brjóstum. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækningum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Xeloda og er lyfseðilskylt.
Dasatinib Krka, filmhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 70 mg af dasatinibi. Lyfið er ætlað til meðferðar við eitilfrumuhvítblæði hjá fullorðnum sjúklingum með Ph+ brátt eitilfrumuhvítblæði, sem eru ónæmir fyrir eða þola ekki fyrri meðferð. Lyfið er einnig ætlað til meðferðar hjá börnum með nýlega greint Ph+ brátt eitilfrumuhvítblæði, ásamt krabbameinslyfjameðferð. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Sprycel og er lyfseðilskylt.
Kesimpta, stungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna. Hver áfylltur lyfjapenni inniheldur 20 mg af ofatumumabi í 0,4 ml af lausn (50 mg/ml). Lyfið er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum sjúklingum með heila- og mænusigg með köstum með virkan sjúkdóm skilgreindan samkvæmt klínískum þáttum eða myndgreiningu. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilskylt.
Leqvio, stungulyf, lausn í áfylltri sprautu. Hver áfyllt sprauta inniheldur inclisiran natríum sem jafngildir 284 mg af inclisirani í 1,5 ml af lausn.
Lyfinu er ætlað fullorðnum með frumkomna kólesterólhækkun (arfblendna ættgenga og sem ekki er ættgeng) eða blandaða blóðfituröskun, sem viðbót við mataræði:
- Ásamt statínum eða statínum með öðrum blóðfitulækkandi meðferðum hjá sjúklingum sem ná ekki viðmiðunarmörkum LDL-kólesteróls með hámarksskammti statíns sem þolist, eða
- Eitt sér eða ásamt öðrum blóðfitulækkandi meðferðum hjá sjúklingum sem ekki þola statín eða mega ekki nota statín.
Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilskylt.
Oropram, filmhúðaðar töflur. Lyfið er fáanlegt í þremur styrkleikjum, 10 mg, 20 mg og 40 mg og inniheldur hver tafla samsvarandi styrkleika af cítalóprami (sem hýdróbrómíð). Lyfið er ætlað til meðferðar við alvarlegum þunglyndislotum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Cipramil og er lyfseðilskylt.
Risperidone Teva GmbH, stungulyfsstofn og leysir, forðadreifa. Lyfið er fáanlegt í þremur styrkleikjum, 25 mg, 37,5 mg og 50 mg og inniheldur hvert hettuglas samsvarandi styrkleika af risperídóni. Lyfið er ætlað til viðhaldsmeðferðar við geðklofa hjá fullorðnum sjúklingum sem þegar nota geðrofslyf til inntöku og jafnvægi hefur náðst á meðferð. Lyfið er samheitalyf lyfsins RISPERDAL CONSTA og er lyfseðilskylt.
Túfen, saft. Lyfið inniheldur 13,33 mg af guaifenesíni í hverjum ml. Lyfið er ætlað til meðferðar við einkennum sýkinga í efri hluta öndunarfæra með seigfljótandi slími. Til notkunar hjá fullorðnum, unglingum og börnum eldri en 6 ára. Markaðsleyfi lyfsins er veitt á þeim forsendum að hefð er fyrir notkun þess. Lyfið er lausasölulyf.
Zassida, stungulyfsstofn, dreifa. Hvert hettuglas inniheldur 100 mg af azasitidín. Eftir blöndun inniheldur hver ml af dreifu 25 mg azasitidín. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá fullorðnum sjúklingum, sem ekki teljast hæfir til beinmergsígræðslu (HSCT), og eru með:
- Miðlungs-2 og há-áhættu mergmisþroska (MDS)
- Langvinnt mergfrumu- og einkjörnungahvítblæði (CMML) með 10-29% mergkímfrumur, án mergofvaxtarröskunar
- Brátt kyrningahvítblæði (AML) með 20-30% kímfrumum og fjöllínulegum rangvexti
- Brátt kyrningahvítblæði með > 30% mergkímfrumur
Lyfið er samheitalyf lyfsins Vidaza og er sjúkrahúslyf og lyfseðilskylt.
Zeoks, filmhúðaðar töflur. Hver tafla inniheldur 360 mg deferasírox. Lyfinu er ætlað til meðferðar við langvarandi járnofhleðslu, vegna tíðra blóðgjafa hjá sjúklingum, 6 ára og eldri, með alvarlegt beta-dvergkornablóðleysi. Lyfið er einnig ætlað til meðferðar við langvarandi járnofhleðslu vegna blóðgjafa þegar ekki má nota deferoxamín eða meðferð með deferoxamíni er ófullnægjandi, handa eftirfarandi sjúklingahópum:
- Börnum á aldrinum 2 til 5 ára með alvarlegt beta-dvergkornablóðleysi ásamt járnofhleðslu vegna tíðra blóðgjafa.
- Hjá fullorðnum og börnum 2 ára og eldri með alvarlegt beta-dvergkornablóðleysi ásamt járnofhleðslu vegna blóðgjafa sem ekki eru tíðar.
- Fullorðnir og börn 2 ára og eldri með aðrar tegundir blóðleysis.
Lyfið er einnig ætlað til meðferðar við langvarandi járnofhleðslu sem þarfnast klóbindingarmeðferðar þegar ekki má nota deferoxamín eða meðferð með deferoxamíni er ófullnægjandi, hjá sjúklingum, 10 ára og eldri, með dvergkornablóðleysi sem ekki er háð blóðgjöfum.
Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í blóðsjúkdómum. Lyfið er samheitalyf lyfsins Exjade og er lyfseðilskylt.
ZESUVA, hart hylki. Lyfið er fáanlegt í þremur styrkleikjum, 12,5 mg, 25 mg og 50 mg og inniheldur hvert hylki samsvarandi styrkleika af sunitinibi. Lyfið er ætlað til:
- Meðferðar á óskurðtæku illkynja æxli í stoðvef maga og þarma og/eða illkynja æxli í stoðvef maga og þarma með meinvörpum (GIST) hjá fullorðnum, ef meðferð með imatinibi hefur ekki borið árangur vegna ónæmis eða óþols sjúklings.
- Meðferðar á langt gengnu nýrnafrumukrabbameini og eða nýrnafrumukrabbameini með meinvörpum (MRCC).
- Meðferðar á óskurðtækum vel þroskuðum taugainnkirtlaæxlum í brisi eða vel þroskuðum taugainnkirtlaæxlum í brisi (pNET) með meinvörpum, hjá fullorðnum með versnandi sjúkdóm.
Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í krabbameinslækingum. Lyfið er samheitalyf lyfsins SUTENT og er lyfseðilskylt.
Zoledronic Acid Teva, innrennslisþykkni, lausn. Hvert hettuglas með 5 ml af þykkni inniheldur 4 mg af zoledronsýru (sem einhýdrat). Einn ml af þykkni inniheldur 0,8 mg af zoledronsýru (sem einhýdrat). Lyfið er ætlað til varnar sjúkdómseinkennum frá beinum (brotum sem stafa af sjúkdómum, samföllnum hrygg (e. spinal compression), geislun eða aðgerð á beinum eða æxlisörvaðri blóðkalsíumhækkun) hjá fullorðnum sjúklingum með langt gengna illkynja sjúkdóma er finnast í beinum. – Lyfið er einnig ætlað til meðferðar hjá fullorðnum sjúklingum við blóðkalsíumhækkun vegna æxla (e. tumor induced hypercalcemia).
Lyfið er samheitalyf lyfsins Zometa og er sjúkrahúslyf og lyfseðilskylt.