Ný lyf á markað í nóvember 2022

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. nóvember 2022

Ný lyf á markað í nóvember

Lyf fyrir menn

Immex frostþurrkaðar töflur. Hver tafla inniheldur 2 mg af lóperamíðhýdróklóríð sem jafngildir 1,85 mg af lóperamíði. Lyfið er ætlað til meðferðar við einkennum bráðs niðurgangs hjá fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri. Immex er samheitalyf Imodium Instant smelttablet 2 mg orodispergeerbare tabletten og er selt í lausasölu.

Lacosamide Medical Valley filmuhúðaðar töflur. Lyfið er fáanlegt í 50 mg, 100 mg, 150 mg og 200 mg og inniheldur hver tafla samsvarandi magn af lacosamíði. Lacosamide Medical Valley er ætlað sem einlyfja- eða viðbótarmeðferð í meðhöndlun á hlutaflogum með eða án alfloga hjá fullorðnum, unglingum og börnum frá 4 ára aldri með flogaveiki. Einnig er það notað sem viðbótarmeðferð á frumkomnum þankippaflogum hjá fullorðnum, unglingum og börnum frá 4 ára aldri með sjálfvakta flogaveiki. Lyfið er samheitalyf Vimpat og er lyfseðilsskylt.

Lacosamide STADA filmuhúðaðar töflur eru fáanlegar í 50 mg, 100 mg, 150 mg og 200 mg. Hver tafla inniheldur samsvarandi magn lakósamíðs. Lyfið er ætlað sem einlyfja- eða viðbótarmeðferð á hlutaflogum með eða án alfloga hjá fullorðnum, unglingum og börnum frá 4 ára aldri með flogaveiki. Lacosamide STADA er einnig ávísað sem viðbótarmeðferð í meðhöndlun á frumkomnum þankippaflogum hjá fullorðnum, unglingum og börnum frá 4 ára aldri með sjálfvakta flogaveiki. Lyfið er samheitalyf Vimpat og er lyfseðilsskylt.

Polivy stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn. Lyfið er fáanlegt í tveimur styrkleikum og inniheldur hvert hettuglas 30 mg eða 140 mg af polatuzumab vedotini. Polivy er ásamt rituximabi, cýklófosfamíði, doxorúbicíni og prednisóni ætlað til meðferðar fullorðinna sjúklinga með áður ómeðhöndlað dreift stórfrumu B-eitilæxli. Lyfið er einnig notað ásamt bendamustíni og rituximabi til meðferðar fullorðinna sjúklinga með dreift stórfrumu B-eitilæxli sem hefur tekið sig upp á ný eða ekki svarað meðferð en koma ekki til greina fyrir beinmergsskipti. Polivy er lyfsseðilsskylt og bundið við notkun á sjúkrahúsum eða öðrum heilbrigðisstofnunum.

Sitagliptin Sandoz filmuhúðaðar töflur. Lyfið fæst í 50 mg og 100 mg og inniheldur hver filmuhúðuð tafla sitagliptinhýdróklóríðeinhýdrat sem jafngildir 50 mg eða 100 mg af sitagliptini. Sitagliptin Sandoz er ætlað til að bæta stjórnun á blóðsykri hjá fullorðnum sjúklinum með sykursýki af tegund tvö sem einlyfjameðferð, sem hluti af tveggja eða þriggja lyfja meðferð eða sem viðbótarmeðferð með insúlíni. Lyfið er samheitalyf Januvia og er lyfseðilsskylt.

Sitagliptin STADA filmuhúðaðar töflur eru fáanlegar í þremur styrkleikum og inniheldur hver tafla sitagliptínhýdróklóríðeinhýdrat sem jafngildir 25 mg, 50 mg eða 100 mg af sitagliptíni. Lyfið er ætlað til að bæta stjórn á blóðsykri hjá fullorðnum sjúklingum með sykursýki af tegund tvö. Sitagliptin er gefið sem einlyfjameðferð, sem hluti af samsettri tveggja eða þriggja lyfja meðferð eða sem viðbótarmeðferð með insúlíni. Sitagliptin STADA er samheitalyf Januvia og er lyfseðilsskylt.

Sitagliptin/Metformin Sandoz filmuhúðaðar töflur eru 50 mg/1000 mg og innihalda sitagliptinhýdróklóríðeinhýdrat sem jafngildir 50 mg af sitagliptini og 1000 mg af meforminhýdróklóríði. Lyfið er ætlað til að bæta stjórnun á blóðsykri hjá fullorðnum sjúklingum með sykursýki af tegund tvö. Sitagliptin/Metformin Sandoz er hægt að nota eitt og sér eða sem hluta af samsettri lyfjameðferð til viðbótar við mataræði og líkamsþjálfun. Lyfið er samheitalyf Janumet og er lyfseðilsskylt.

Comirnaty Original/Omicron BA.4-5 stungulyf, ördreifa. Hver skammtur lyfsins inniheldur 15 míkrógrömm af tozinameran og 15 míkrógrömm af famtozinameran sem bæði eru COVID-19 mRNA bóluefni. Comirnaty Original/Omicron BA.4-5 er ætlað til virkar bólusetningar gegn COVID-19 hjá einstaklingum 12 ára og eldri sem áður hafa fengið að minnsta kosti grunnbólusetningu gegn sjúkdóminum. Bóluefnið er lyfseðilsskylt.

Midodrin Evolan töflur. Hver tafla inniheldur 2,5 mg af midodrin hýdróklóríði. Midodrin Evolan 5 mg töflur voru þegar fáanlegar en 2,5 mg töflur bætast nú við á markað. Lyfið er ætlað fullorðnum til meðferðar við verulegum réttstöðulágþrýstingi vegna truflunar í ósjálfráða taugakerfinu þegar aðrar meðferðir og aðgerðir til leiðréttingar hafa ekki borið árangur. Midodrin Evolan er samheitalyf Gutron og er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 15. nóvember 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat