Ný lyf á markað í október 2023

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. október 2023

Í október komu 11 ný lyf fyrir menn á íslenskan markað, 1 uppfærsla á bóluefni og 1 nýr styrkleiki lyfs sem þegar var á markaði. Lyfin tilheyra 9 ATC flokkum.

Ný lyf sem komu á markað í október 2023

LyfjaheitiLyfjaformStyrkleikiMagnÁvana og fíknilyf
DermatinHársápa20 mg/g120 mlNei
Dexamethasone hamelnStungulyf, lausn4 mg/ml1 ml x10Nei
DrovelisFilmuhúðuð tafla3 mg/14,2 mg84 stkNei
Ephedrine SinteticaStungulyf, lausn50 mg/ml1 mlNei
Hydroxocobalamin G.L. PharmaStungulyf, lausn1 mg/ml1 ml x3Nei
Imodium (Heilsa)Tafla2 mg16 stkNei
ParacetMunndreifitafla250 mg12 stkNei
Rennie (Heilsa)Tuggutafla680 mg/80 mg96 stkNei
Strattera (Lyfjaver)Hylki10 mg, 18 mg, 25 mg, 60 mg, 80 mg, 100 mg28 stkNei
TezspireStungulyf, lausn í áfylltri sprautu210 mg1 stkNei
WegovyStungulyf, lausn í áfylltum lyfjapenna0,25 mg, 0,5 mg, 1 mg, 1,7 mg, 2,4 mg1 stkNei

ATC flokkur A – Meltingarfæri og efnaskipti

Imodium (heilsa), töflur.

Lyfið er fáanlegt í einum styrkleika en hver tafla inniheldur 2 mg af lóperamidhýdróklóríði.

Imodium (Heilsa) kemur þarmahreyfingum í eðlilegt horf, vinnur gegn vökvatapi og eykur getuna til þess að halda hægðum. Lyfið er því notað við tilfallandi (skyndilegum) niðurgangi. Einnig getur læknir ávísað því til meðferðar við langvarandi niðurgangi og handa þeim sem eru með poka á kvið eftir sumar maga- og þarmaaðgerðir sem og þeim sem eiga í erfiðleikum með að halda hægðum.

Imodium (Heilsa) er samhliða innflutt og fæst í lausasölu.

Rennie (Heilsa), tuggutöflur.

Lyfið er fáanlegt í einum styrkleika en hver tuggutafla inniheldur 680 mg kalsíumkarbónat og 80 mg magnesíumkarbónat.

Tuggutöflurnar draga úr óþægindum eins og brjóstsviða og bakflæði, ásamt sýrutengdum magaverkjum með því að hlutleysa saltsýru í maga. Sýrubindandi áhrifin koma fram innan nokkurra mínútna.

Rennie (Heilsa) er samhliða innflutt og fæst í lausasölu.

Wegovy stungulyf, lausn í áfylltum FlexTouch lyfjapenna.

Lyfið er fáanlegt í fimm styrkleikum; 0,25 mg, 0,5 mg, 1 mg, 1,7 mg og 2,4 mg af semaglútíði. Hver FlexTouch lyfjapenni inniheldur 4 skammta af lyfinu, þannig inniheldur 1 lyfjapenni af lægsta styrkleika lyfsins samtals 1 mg af semaglútíði sem svo skiptist í fjóra 0,25 mg skammta.

Fyrir fullorðna er Wegovy ætlað sem viðbót við hitaeiningaskert mataræði og aukna hreyfingu til þyngdarstjórnunar, þ.m.t. þyngdartaps og þyngdarviðhalds, hjá einstaklingum með upphafslíkamsþyngdarstuðulinn (BMI) ≥ 30 kg/m2 eða með BMI ≥ 27 kg/m2 sem eru með a.m.k einn þyngdartengdan fylgisjúkdóm eins og blóðsykursröskun, háþrýsting, blóðfituröskun, teppukæfisvefn eða hjarta- og æðasjúkdóm.

Unglingum ≥12 ára er ætlað Wegovy sem viðbót við hitaeiningaskert mataræð og aukna hreyfingu til þyngdarstjórnunar ef þeir eru með skilgreinda offitu samkvæmt BMI vaxtarferlum fyrir aldur og kyn og líkamsþyngd yfir 60 kg. Stöðva skal meðferð með Wegovy og endurmeta hjá unglingum ef BMI hefur ekki lækkað um a.m.k. 5% eftir 12 vikur með skammtinum 2,4 mg eða hámarksskammti sem þolist.

Wegovy er samheitalyf Ozempic og er lyfseðilsskylt.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila.

ATC flokkur B – Blóð og blóðmyndandi líffæri

Hydroxocobalamin G.L. Pharma stungulyf, lausn.

Lyfið er fáanlegt í einum styrkleika og inniheldur hver ml af því 1 mg af hýdroxokóbalamíni (B12-vítamíni).

Hydroxocobalamin G.L. Pharma er notað til að fyrirbyggja og meðhöndla illkynja blóðleysi (af völdum B12-vítamínskorts) og annars konar B12-vítamínskort þegar meðferð með töflum til inntöku er ekki talin nægjanleg eða við hæfi.

Lyfið er frumlyf og fæst einungis afgreitt eftir ávísun læknis.

ATC flokkur C – Hjarta- og æðakerfi

Ephedrine Sintetica stungulyf, lausn.

Lyfið er aðeins fáanlegt í einum styrkleika en hver ml lausnar inniheldur 50 mg efedrínhýdróklóríðs.

Ephedrine Sintetica er notað til meðferðar við lágum blóðþrýstingi við deyfingu eða svæfingu, hvort sem um er að ræða mænudeyfingu eða utanbastsdeyfingu hjá fullorðnum og unglingum eldri en 12 ára.

Lyfið er frumlyf og lyfseðilsskylt.

ATC flokkur D - Húðlyf

Dermatin hársápa.

Hársápan er fáanleg í einum styrkleika en hvert g inniheldur 20 mg af ketókónazóli.

Dermatin er sveppalyf og er notað við flösu og öðrum sveppasýkingum sem valda kláða og flögnun húðar.

Lyfið er fáanlegt í lausasölu.

ATC flokkur G – Þvag- og kynfæri og kynhormón

Drovelis filmuhúðuð tafla.

Hver filmuhúðuð tafla af Drovelis inniheldur 3 mg af drospirenoni og estetróleinhýdrat sem jafngildir 14,2 mg af estetróli.

Drovelis er getnaðarvörn til inntöku og er það lyfseðilsskylt en auk lækna er hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum heimilt að ávísa því.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila.

ATC flokkur H – Hormónalyf til altækrara notkunar, önnur en kynhormón og insúlín

Dexamethasone hameln stungulyf, lausn.

Lyfið er fáanlegt í styrkleikanum 4 mg/ml en í hverjum ml þess eru 4 mg dexametasónfosfats.

Dexamethasone hameln er notað til að meðhöndla sjúkdóma sem þarfnast meðhöndlunar með sykurbarksterum og getur annars vegar verið um altæka notkun eða staðbundna að ræða, eftir alvarleika. Notkunin getur meðal annars náð til einstaklinga með bólgu í heila, lost í kjölfar alvarlegra áverka, COVID-19, brátt alvarlegt astmakast, úbreidda og alvarlega húðkvilla, útbreiddan sjálfsofnæmissjúkdóm og stuðningsmeðferð við illkynja sjúkdómum.

Lyfið er samheitalyf og er lyfseðilsskylt.

ATC flokkur N – Taugakerfi

Paracet munndreifitafla.

Lyfið er fáanlegt í einum styrkleika en hver munndreifitafla með bananabragði inniheldur 250 mg af parasetamóli.

Paracet er verkjastillandi og hitalækkandi lyf. Hjá fullorðnum og börnum þyngri en 13 kg (eldri en 2 ára) er lyfið ætlað sem skammtímameðferð við hita, t.d. vegna vægs kvefs eða inflúensu eða vægum til miðlungs verkjum, t.d. höfuðverk, tannpínu, tíðaverkjum, vöðvaverkjum og liðverkjum.

Lyfið er samheitalyf og fæst í lausasölu.

Strattera (Lyfjaver) hylki.

Lyfið er fáanlegt í 6 styrkleikum; 10 mg, 18 mg, 25 mg, 60 mg, 80 mg og 100 m og inniheldur hvert hylki samsvarandi magn af atomoxetíni.

Strattera (Lyfjaver) er notað til að meðhöndla athyglisbrest með ofvirkni (ADHD) hjá börnum eldri en 6 ára, ungmennum og fullorðnum sem hluti af heildarmeðferð með öðrum aðferðum, svo sem ráðgjöf og atferlismeðferð. Ekki er ætlast til að lyfið sé notað fyrir börn undir 6 ára aldri. Lyfið er notað til að meðhöndla ADHD hjá fullorðnum ef einkenni eru mjög erfið og hafa áhrif á vinnu eða félagslíf og voru líka til staðar á barnsaldri.

Strattera (Lyfjaver) er samhliða innflutt og er einungis afgreitt gegn lyfjaávísun læknis.

ATC flokkur R - Öndunarfæri

Tezspire stungulyf, lausn í áfylltri sprautu.

Hver áfyllt sprauta af Tezspire inniheldur 210 mg tezepelumabs í 1,91 m af lausn.

Tezspire er ætlað sem viðbótarmeðferð hjá fullorðnum og unglingum 12 ára og eldri með svæsinn astma sem ekki hefur náðst fullnægjandi stjórn á þrátt fyrir stóra skammta af barksterum til innöndunar ásamt öðrum lyfjum ætluðum til viðhaldsmeðferðar.

Lyfið er frumlyf og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í lungna- og ofnæmislæknigum og ofnæmislækningum barna.

Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila.

Nýr styrkleiki sem kom á markað í október 2023

LyfjaheitiLyfjaformStyrkleikiMagnÁvana- og fíknilyf
Bupropion TevaTafla með breyttan losunarhraða150 mg30 stk og 90 stkNei

ATC flokkur N – Taugakerfi

Bupropion Teva tafla með breyttan losunarhraða.

Þann 1. október kom lyfið Bupropion Teva á markað á Íslandi í styrkleikanum 150 mg og bættist sá styrkleiki við 300 mg sem þegar voru fáanleg. Hver tafla af nýja styrkleikanum inniheldur 150 mg af búprópíónhýdróklíríði.

Bupropion Teva er ávísað til meðferðar gegn þunglyndi.

Lyfið er samheitalyf Zyban 150 mg forðatafla og er það lyfseðilsskylt.

Uppfært bóluefni

LyfjaheitiLyfjaformStyrkleikiMagnÁvana og fíknilyf
Comirnaty Omicron XBB.1.5Stungulyf, ördreifa30 míkróg30 stk og 90 stkNei

ATC flokkur J – Sýkingalyf til altækrar notkunar

Comirnaty Omicron XBB.1.5 stungulyf, ördreifa.

Virka efni Comirnaty Omicron XBB.1.5 er COVID-19 mRNA bóluefnið raxtozinameran og inniheldur hver 0,3 ml skammtur 30 míkrógrömm af því.

Comirnaty Omicron XBB.1.5 er ætlað til virkrar bólusetningar gegn COVID-19 af völdum SARS-CoV-2 hjá einstaklingum 12 ára og eldri.

Lyfið er frumlyf og er notkun þess lyfseðilsskyld.

Nánari upplýsingar um lyfin má nálgast í sérlyfjaskrá og í lyfjatextum hvers lyfs.

Samantekt um ný lyf inniheldur einungis upplýsingar um ný lyf, nýja styrkleika og uppfært bóluefni. Umfjöllunin nær ekki til nýrra pakkningastærða eða breyttra vörunúmera. Upplýsingar um framangreint er hægt að nálgast í lista yfir ný lyf til birtingar.

Síðast uppfært: 18. október 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat