Ný lyf á markað í október

Stutt samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. október.

Ný lyf á markað 1. október 2020

Doxazosin Krka, töflur með breyttan losunarhraða. Hver tafla með breyttan losunarhraða inniheldur 4 mg af doxazosini, sem samsvarar 4,85 mg af doxazosin mesylati. Lyfið er ætlað til meðferðar háþrýstingi sem og þvaglátatruflunum og einkennum sem fylgja góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli. Lyfið er samheitalyf lyfsins Carduran Retard og er lyfseðilsskylt.

Intuniv, forðatöflur. Hver tafla inniheldur gúanfacínhýdróklóríð sem jafngildir 1 mg, 2 mg, 3 mg eða 4 mg af gúanfacíni. Lyfið er ætlað til meðferðar á athyglisbresti með ofvirkni (ADHD) hjá börnum (þ.m.t. börnum og unglingum 6-17 ára) þegar örvandi lyf henta ekki, þolast ekki eða sýnt hefur verið fram á að meðferð með þeim beri ekki árangur. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í barnalækningum, barnageðlækningum og geðlækningum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Spravato, nefúði, lausn. Hvert nefúðatæki inniheldur esketaminhýdróklóríð sem samsvarar 28 mg esketamin. Lyfið, ásamt sértækum serótónín-endurupptökuhemli (SSRI) eða serótónín-noradrenalínendurupptökuhemli (SNRI), er ætlað fullorðnum til meðferðar á alvarlegu þunglyndi sem svarar illa meðferð og hefur ekki svarað a.m.k. tveimur mismunandi meðferðum með þunglyndislyfjum í yfirstandandi meðalsvæsinni eða svæsinni þunglyndislotu. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Spravato er eftirritunarskylt og lyfseðilsskylt. Lyfið er frumlyf og sjúkrahúslyf.

Vyndaqel, mjúk hylki. Hvert hylki inniheldur 61 mg af míkróníseruðu tafamidismeglúmíni. Lyfið er ætlað til meðferðar við villigerðar (wild-type) eða arfgengu transtýretín mýlildi (transthyretin amyloidosis) hjá fullorðnum sjúklingum með hjartavöðvakvilla (ATTR-CM). Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Ávísun lyfsins er bundin við sérfræðinga í hjartalækningum, almennum lyflækningum, öldrunarlækningum og taugalækningum. Lyfið er frumlyf og er lyfseðilsskylt.

Nýtt lyfjaform og styrkleiki

Darzalex, stungulyf, lausn. Hvert 15 ml hettuglas af stungulyfi, lausn inniheldur 1.800 mg af daratumumabi. Lyfið er ætlað til meðferðar hjá sjúklingum með mergæxli, ýmist sem hluti af samsettri meðferð með öðrum lyfjum eða einlyfjameðferð eftir aðstæðum. Lyfið er undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi lyfsins komist fljótt og örugglega til skila. Heilbrigðisstarfsmenn eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir sem grunur er um að tengist lyfinu. Lyfið er frumlyf, er sjúkrahúslyf og er lyfseðilsskylt.

Síðast uppfært: 29. október 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat