Ný lyf á markað í september 2023

Samantekt um ný lyf sem komu á markað 1. september 2023

Í september komu 4 ný lyf fyrir menn á íslenskan markað og 4 nýir styrkleikar lyfja sem þegar voru á markaði. Lyfin tilheyra 5 ATC flokkum.

Ný lyf sem komu á markað í september 2023

LyfjaheitiLyfjaformStyrkleikiMagnÁvana og fíknilyf
Digoxin DAK (Lyfjaver)Tafla62,5 míkróg og 250 míkróg100 stkNei
EnhertuStofn fyrir innrennslisþykkni, lausn100 mg1 stkNei
IbetinFilmuhúðuð tafla400 mg50 stkNei
Teriflunomide SandozFilmuhúðuð tafla14 mg28 stkNei

ATC flokkur C – Hjarta- og æðakerfi

Digoxin DAK (Lyfjaver) töflur

Lyfið er fáanlegt í tveimur styrkleikum; 62,5 míkróg og 250 míkróg og inniheldur hver tafla samsvarandi magn af dígoxíni.

Digoxin DAK (Lyfjaver) er ætlað til meðferðar við hjartabilun, gáttatifi og gáttaflökti með hraðri virkni slegla og öðrum hraðtakti ofan slegla.

Lyfið er samhliða innflutt og lyfseðilsskylt.

ATC flokkur L – Æxlishemjandi lyf og lyf til ónæmistemprunar

Enhertu stofn fyrir innrennslisþykkni, lausn

Hvert hettuglas með stofni fyrir innrennslisþykkni, lausn inniheldur 100 mg af trastuzúmab deruxtekani. Eftir blöndun inniheldur eitt hettuglas með 5 ml af lausn 20 mg/ml af trastuzúmab deruxtekani.

Enhertu er notað við:

  • HER2-jákvæðu brjóstakrabbameini
    sem einlyfjameðferð hjá fullorðnum sjúklingum ef krabbameinið er óskurðtækt eða með meinvörpum og meinið hefur áður verið meðhöndlað með einni eða fleirir meðferðum gegn HER2
  • HER2-lágu brjóstakrabbameini
    sem einlyfjameðferð hjá fullorðnum sjúklingum ef krabbameinið er óskurðtækt eða með meinvörpum og áður hefur verið reynd krabbameinslyfjameðferð vegna krabbameins með meinvörpum eða vegna endurkomu sjúkdóms meðan á viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjum stóð eða innan 6 mánaða eftir að henni lauk
  • Magakrabbameini
    sem einlyfjameðferð hjá fullorðnum sjúklingum með langt gengið HER2-jákvætt kirtilkrabbamein í maga eða maga- og vélindamótum sem áður hafa fengið meðferð með trastuzúmabi

Lyfið er frumlyf, lyfseðilsskylt og bundið við notkun á heilbrigðisstofnun þar sem fyrir hendi er nauðsynleg þekking, aðstaða og búnaður sem er forsenda fyrir notkun þess. Að auki er ▼lyfið undir sérstöku eftirliti til að nýjar upplýsingar um öryggi þess komist fljótt og örugglega til skila. Öryggis- og fræðsluefni um lyfið ætlað heilbrigðisstarfsfólki og sjúklingum er aðgengilegt í sérlyfjaskrá.

Teriflunomide Sandoz filmuhúðaðar töflur

Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 14 mg af teriflúnómíði og er lyfið ætlað til meðferðar hjá fullorðnum og börnum 10 ára og eldri við kastaformi heila- og mænusiggs (MS).

Teriflunomide Sandoz er samheitalyf Aubagio og er ávísun þess bundin við sérfræðinga í taugasjúkdómum.

ATC flokkur M – Stoðkerfi

Ibetin filmuhúðaðar töflur

Hver filmuhúðuð tafla inniheldur 400 mg af íbúprófeni.

Lyfið er ætlað fullorðnum og unglingum eldri en 12 ára (≥ 40 kg) sem meðferð við tímabundnum verkjum, mígreni, tíðaverkjum og/eða hita.

Ibetin er samheitalyf Brufen og fæst í lausasölu.

Nýir styrkleikar sem komu á markað í september 2023

LyfjaheitiLyfjaformStyrkleikiMagnÁvana og fíknilyf
Elvanse AdultHart hylki20 mg, 40 mg og 60 mg30 stk
TrimbowInnúðalyf, lausn172 míkróg/5 míkróg/9 míkróg120 skammtarNei

ATC flokkur N – Taugakerfi

Elvanse Adult hörð hylki

Í september bættust við styrkleikarnir 20 mg, 40 mg og 60 mg en fyrir voru á markaði Elvanse Adult hörð hylki í styrkleikunum 30 mg, 50 mg og 70 mg. Hvert hylki inniheldur samsvarandi magn af lísdexamfetamíntvímesýlati.

20 mg lísdexamfetamíntvímesýlats jafngilda 5,9 mg af dexamfetamíni, 40 mg lísdexamfetamíntvímesýlats jafngilda 11,9 mg dexamfetamíns og 60 mg af lísdexamfetamíntvímesýlati jafngilda 17,8 mg af dexamfetamíni.

Elvanse Adult er ætlað fullorðnum sem meðferð við „athyglisbresti með ofvirkni“ (ADHD).

Lyfið er frumlyf, lyfseðilsskylt og eftirritunarskylt. Hámarksmagn sem má afgreiða með lyfjaávísun er sem svarar 30 daga skammti og er hann ákvarðaður út frá notkunarfyrirmælum í lyfjaávísun. Elvanse Adult er merkt með rauðum varúðarþríhyrningi.

ATC flokkur R – Öndunarfæri

Trimbow innúðalyf, lausn

Innúðalyfið Trimbow var fáanlegt á íslenskum markaði í styrkleikanum 87 míkróg/5 míkróg/9 míkróg en í september bættist við styrkleikinn 172 míkróg/5 míkróg/9 míkróg.

Hver gefinn skammtur af nýja styrkleikanum inniheldur 172 míkrógrömm af beklómetason díprópíónati, 5 míkrógrömm af formóteról fúmarat díhýdrati og 9 míkrógrömm af glýkópýrróníum.

Trimbow er notað sem viðhaldsmeðferð við astma hjá fullorðnum sem ekki hefur náðst fullnægjandi stjórn á með viðhaldsblöndu af langvirkum beta2-örva og stórum skammti af barksterum til innöndunar og sem fengu versnun einu sinni eða oftar árið áður.

Lyfið er frumlyf og er það lyfseðilsskylt.

Nánari upplýsingar um lyfin má nálgast í sérlyfjaskrá og í lyfjatextum hvers lyfs.

Samantekt um ný lyf inniheldur einungis upplýsingar um ný lyf og nýja styrkleika. Umfjöllunin nær ekki til nýrra lyfjaforma, nýrra pakkningastærða eða breyttra vörunúmera. Upplýsingar um framangreint er hægt að nálgast í lista yfir ný lyf til birtingar.

Síðast uppfært: 6. september 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat