Nýtt frá CHMP – desember 2019

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir menn (CHMP) hélt fund dagana 9.-12. desember sl. Mælt var með að fimm lyfjum yrði veitt markaðsleyfi, þar á meðal tveimur nýjum lyfjum, og nýrri líftæknilyfshliðstæðu.

Annað nýju lyfjanna tveggja er Beovu sem ætlað er til meðhöndlunar aldurstengdri (votri) sjónudepilsrýrnun. Virka efni lyfsins er brolucizumab sem hindrar æðaþelsvaxtarþátt A ( VEGF-A, Vascular Endothelial Growth Factor A), dregur þannig úr óeðlilegum vexti innanþekjufrumna, sjúkdómsfræðilegri nýmyndun æða og minnkar gegndræpi æða. Beovu viðheldur þannig skarpari sjón.

Lyfið Recarbrio er við sýkingum vegna loftháðra, Gram-neikvæðra örvera í fullorðnum, í þeim tilvikum sem önnur meðferð hefur ekki skilað árangri. Virku efnin í Recarbrio eru imipenem, cilastatin og relebactam.

Líftæknilyfshliðstæðan Amsparity er til að meðhöndla bólgu- og sjálfsofnæmissjúkdóma, svo sem ýmsa gigtarsjúkdóma og psoriasis. Virka efnið í lyfinu er adalimumab.

Samheitalyfin sem hlutu jákvæða umsögn eru Azacitidine Accord, til meðhöndlunar blóðkrabbameina, og Dexmedetomidine Accord, sem er róandi lyf fyrir fullorðna ætlað til notkunar á gjörgæsludeildum.

Þá var einnig mælt með víkkun á ábendingum nokkurra lyfja, Akynzeo, Cyramza, Darzalex, Dificlir, Erleada, Sirturo, Stelara og Vyndaqel.

Frétt EMA um fund CHMP í desember

Dagskrá CHMP fundar í desember

Síðast uppfært: 6. janúar 2020
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat