Nefndin hóf yfirferð á lyfjum sem innihalda sýndarefedrín (e. pseudoephedrine) í kjölfar þess að áhyggjur vöknuðu um að þau gætu aukið áhættu á afturkræfu aftara heilakvillaheilkenni (e. Posterior Reversible Encephalopathy Syndrome (PRES)) og afturkræfu heilaæða samdráttarheilkenni (e. reversible cerebral vasoconstriction syndrome (RCVS)) sem hafa áhrif á æðar í heila. Sýndarefedrín eru tekin um munn og eru notuð ein og sér eða með öðrum lyfjum til að losa stíflur í nefi vegna kvefs, flensu eða ofnæmis.
PRES og RCVS geta valdið minnkuðu blóðflæði í heila sem getur í einhverjum tilfellum verið lífshættulegt. Algeng einkenni tengd PRES og RCVS eru t.d. höfuðverkur, ógleði og flog. Áður var þekkt að sýndarefedrín geti valdið tilfellum tengdum blóðþurrð í hjarta og heila, þar með talið heilablóðfalli og hjartaáfalli. Þegar er varað við þekktri áhættu í lyfjatextum lyfjanna.
Yfirferðin var hafin vegna nokkurra tilkynninga um PRES og RCVS hjá einstaklingum sem höfðu notað sýndarefedrín. Vegna alvarleika heilkennanna þarf að meta betur öryggi lyfjanna og ábendingar þeirra. Í kjölfarið verður ákvarðað hvort viðhalda eigi markaðsleyfunum eða endurkalla þau.
Staðan á Íslandi
Lyfin Aerinaze og Clarinase eru einu lyfin sem innihalda sýndarefedrín í blöndum og hafa markaðsleyfi á Íslandi. Hvorugt þeirra er á markaði hér á landi. Engin lyf sem innihalda sýndarefedrín ein og sér hafa íslensk markaðsleyfi.