Sérfræðinefnd EMA um
eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (PRAC) kom saman dagana 12.-15. mars sl.
Nefndin hefur hafist handa við að meta aðferðir við skimun sjúklinga, sem mælt
er með að fari fram áður en ávísað er lyfjum sem innihalda flúoroúracil. Matið
nær einnig til lyfja sem umbreytast í flúoroúracil í líkamanum, capecitabine,
tegafúr og flucýtósín. Mat sérfræðinefndarinnar snýr að því hversu vel núverandi
skimunaraðferðir hafa reynst til að finna þá sjúklinga sem eiga á hættu að fá
alvarlegar aukaverkanir við notkun lyfjanna. -Flúoroúracil, capecitabine og tegafúr
eru krabbameinslyf, en flúoroúracil til útvortis notkunar er notað við ýmsum húðsjúkdómum,
og flucýtósín við alvarlegum sveppasýkingum.
Tiltekið ensím verður að vera til staðar
Vitað er að sumt fólk skortir ensím sem kallast díhydrópyrimídín dehydrógenasi
(DPD) og er nauðsynlegt til að líkaminn geti brotið niður flúoroúracil. Sé
ensímið ekki til staðar magnast styrkur efnisins í blóðinu og getur það haft
alvarlegar afleiðingar; skaðað sum hvítu blóðkornin, valdið skemmdum á taugakerfi,
alvarlegum niðurgangi eða slímhúðarbólgum í munni. Því er afar mikilvægt að
ljóst sé hvort DPD-ensímið er til staðar áður en læknir ávísar
flúoroúracil-lyfjum. Allt að 8% hafa DPD einungis í lágum styrk og 0,5% hafa
það alls ekki.
Til athugunar hvort þrengja þarf skilyrði
Hingað til hefur verið mælt með erfðarannsókn með tilliti til skorts á virkni
DPD áður en þessi krabbameinslyf eru gefin, en markviss skimun hefur ekki verið
sett sem skilyrði fyrir notkun þeirra. Sérfræðinefndin mun nú meta hvort fyrri
aðferðir hafa reynst fullnægjandi, sérstaklega í ljósi þess að nýjar
upplýsingar um erfðafræðirannsóknir og annars konar DPD skimun hafa komið fram.
Eitt lyf sem inniheldur
flúoroúracil er á markaði á Íslandi, Flurablastin. Einnig lyfið Xeloda sem
inniheldur capecitebine.