Nýtt frá PRAC – september 2017

Sérfræðinefnd lyfjastofnunar Evrópu, EMA, um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja, PRAC, fundaði dagana 29. ágúst – 1. september síðastliðinn. Þrennt var til umræðu á fundinum.

Parasetamól með breyttan losunarhraða

Sérfræðinefnd EMA leggur til að parasetamól með breyttan losunarhraða verði tekið af markaði. Breyttur losunartími lyfja þýðir að virka efnið skilar sér í líkamann á lengri tíma en þar sem því er ætlað verka skömmum tíma eftir inntöku. Ákvörðun um tilmælin var tekin í ljósi þess að erfitt hefur reynst að koma í veg fyrir ofskömmtun virka efnisins. Þar koma til þeir flóknu ferlar sem liggja að baki því hvernig lyf af þessu tagi skila parasetamólinu út í líkamann. Til grundvallar ákvörðuninni kynnti PRAC sér rannsóknir og ræddi við sérfræðinga.  Niðurstaðan var sú að þó parasetamól í lyfjum með breyttan losunartíma feli í sér ávinning séu þau rétt notuð, er hætta á að slík lyf verði notuð með sama hætti og þau sem skila virka efninu fljótt eftir inntöku. Því er lagt til að lyf af þessu tagi verði tímabundið tekin af markaði. Nánar má lesa um ráðleggingu PRAC varðandi parasetamól með breyttan losunarhraða hér.

Lyf við dreyrasýki – ekki munur vegna vinnsluaðferða

Eftir að hafa farið aftur yfir málið hefur PRAC staðfest fyrri ályktun sína frá í maí 2017 um tvenns konar vinnsluaðferð lyfja við dreyrasýki A, eða Factor VIII. Að engar vísbendingar séu um að sjúklingar þrói frekar með sér tálma gegn virkni lyfs sé það unnið með genatækni frekar en með hefðbundinni aðferð, úr blóðvökva. Áhættan af hvoru um sig verður áfram metin eftir því sem rannsóknum vindur fram.

Opinn fundur um lyf við flogaveiki ofl.

PRAC hefur samþykkt lista þátttakenda og umræðuefni á fundi sem haldinn verður 26. september 2017 um lyfið valproat sem notað er við flogaveiki og mígreni m.a. Alls sóttu 79 almennir borgarar um að sækja fundinn, ýmist sem beinir þátttakendur eða áheyrnarfulltrúar. Öllum þeim verður boðið til fundarins í höfuðstöðvum EMA í Lundúnum, en takmarka verður fjölda þeirra sem taka þátt í umræðunni. Þeir sem ekki komast á fundinn geta fylgst með á vefsvæði EMA þar sem honum verður varpað beint.

Frétt EMA af fundi PRAC um síðustu mánaðamót

Síðast uppfært: 11. september 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat