Ofskömmtun ADHD lyfja áhyggjuefni

Tilkynning aukaverkana veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja

Í nýrri umfjöllun RÚV kemur fram að Íslendingar nota langt um meira af ADHD lyfjum en aðrir Norðurlandabúar. Notkunin hefur aukist síðastliðin ár og skammtar orðið stærri. Upplýsingar frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins eru á þá leið að um 20% þeirra sem séu á ADHD lyfjum séu á of stórum skömmtum. Sjúklingar á ADHD lyfjum hafa leitað á hjartadeild Landspítala vegna alvarlegra veikinda á borð við hjartaáföll og hjartabilun, ekki er hægt að útiloka orsakatengsl við lyfin þar sem aukaverkanir á hjarta eru þekktar og þekkt eru áhrif ofskömmtunar þessara lyfja á hjarta og æðakerfið.

Mikilvægt að læknar kynni sér upplýsingar um lyfið og miðli þeim til sjúklinga

Að gefnu tilefni áréttar Lyfjastofnun að ítarlega er fjallað um skammtastærðir lyfja í samantekt á eiginleikum lyfs (SmPC) sem hægt er að nálgast í Sérlyfjaskrá. Þá fylgir sumum lyfjum öryggis- og fræðsluefni sem dreift er af markaðsleyfishafa og er einnig hægt að nálgast í Sérlyfjaskrá.

Meðan á meðferð með örvandi lyfjum eins og methylphenidati og lisdexamfetamíni stendur skal hafa eftirlit með hjarta og æðakerfi; upplýsingar þar að lútandi er að finna í lyfjatextum og fræðsluefni í Sérlyfjaskrá. Mikilvægt er að læknar kynni sér þetta efni og upplýsi sjúklinga sína um það efni sem ætlað er notendum lyfsins. Þegar lyfjum er ávísað til notkunar í öðrum skömmtum en þeim sem getið er um í fylgiseðli og SmPC er mikilvægt að vekja athygli sjúklings á því og útskýra hvers vegna aðrir skammtar eru valdir. Þá er ávallt mikilvægt að koma á framfæri upplýsingum um hugsanlegar aukaverkanir lyfsins sem fjallað er um í lyfjatextum.

Tilkynning aukaverkana veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja

Aukaverkanatilkynningar veita mikilvægar upplýsingar um öryggi lyfja þegar þau eru komin í almenna notkun. Því er rétt að hvetja almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk til að senda upplýsingar um slík tilvik til Lyfjastofnunar.

Heilbrigðisstarfsmanni sem hefur grun um alvarlega, nýja eða óvænta aukaverkun af notkun lyfs í störfum sínum, er skylt að tilkynna það til Lyfjastofnunar. Þessi skylda er bundin í lög frá í ársbyrjun 2021 og er að finna í 63. gr. lyfjalaga. Allir geta tilkynnt grun um aukaverkun lyfs. Hægt er að tilkynna rafrænt í gegnum gátt á vef Lyfjastofnunar. Einnig geta heilbrigðisstarfsmenn tilkynnt beint í gegnum eyðublað í Sögukerfinu.

Síðast uppfært: 16. apríl 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat