Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins óskar eftir fulltrúum sjúklingasamtaka til að taka sæti í einni af nefndum Lyfjastofnunar Evrópu (EMA). Um er að ræða sérfræðinefnd EMA um eftirlit með ávinningi og áhættu lyfja (Pharmacovigilance Risk Assessment Committee, PRAC), nefnd sem metur og sinnir eftirliti í því sem lýtur að lyfjaöryggi.
Í PRAC sitja fulltrúar allra þeirra landa sem aðild eiga að EMA, vísindamenn, fulltrúi heilbrigðisstarfsmanna, auk fulltrúa sjúklingasamtaka sem ætlað er að vera málsvari sjúklinga í umræðum nefndarinnar. Ekki er farið fram á að fulltrúinn sé menntaður í heilbrigðisfræðum, en góð innsýn í læknisfræðileg og lögfræðileg málefni sem snúa að lyfjum er kostur.
Óskað er eftir umsóknum í tvær stöður, aðalfulltrúa sjúklinga í PRAC annars vegar, varamanns hins vegar. Skipanin er til þriggja ára frá 1. mars 2019, umsóknarfrestur er til og með 4. nóvember.
Nánari upplýsingar og umsóknareyðublað má finna á vef Framkvæmdastjórnar ESB.