Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur ákveðið að parasetamól með breyttan losunarhraða skuli tekið af markaði. Ákvörðunin er bindandi og er aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, þ.m.t. Íslandi, skylt að innleiða hana.
Hér á landi er eitt slíkt lyf á markaði; Paratabs retard, forðatafla 500 mg. Lyfjastofnun hefur samkvæmt þessu því tekið ákvörðun um að Paratabs retard verði fellt úr lyfjaskrám á Íslandi frá og með 1. júní 2018. Hægt verður að ávísa lyfinu og afgreiða það í apótekum til og með 31. maí 2018. Ástæða þess að lyfið verður tekið af markaði eru erfiðleikar við að meðhöndla sjúklinga sem hafa tekið of stóran skammt af lyfinu.
Lyfjastofnun hefur veitt markaðsleyfi fyrir önnur lyf sem ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB nær til en þau eru ekki á markaði hér á landi.
Önnur lyf sem innihalda parasetamól verða ekki tekin af markaði þar sem ákvörðunin nær ekki til þeirra. Þó nokkur slík lyf eru á markaði á Íslandi.
Athygli er vakin á því að þegar Paratabs retard er notað á réttan hátt og í ráðlögðum skammtastærðum vegur ávinningur þess hærra en áhættan sem fylgir notkuninni.
Fagaðilar upplýstir um ákvörðunina
Ákvörðunin mun hafa áhrif á nokkurn fjölda íslenskra lyfjanotenda. Þeir lyfjanotendur sem eiga gilda einnota eða fjölnota lyfseðla eiga að hafa samband við ávísandi lækni til að fá ráðleggingar og/eða nýja lyfjaávísun með annarri meðferð eins fljótt og kostur er. Ávísandi læknum er bent á að huga nú þegar að því að finna aðra viðeigandi meðferð fyrir þá lyfjanotendur sem ákvörðunin kemur til með að hafa áhrif á. Lyfjastofnun hefur gripið til viðeigandi ráðstafanna til þess að tryggja að fagaðilar séu upplýstir um ákvörðunina.
Hvað greinir Paratabs retard frá öðrum parasetamól lyfjum?
Paratabs retard forðatöflur er lyf í töfluformi sem inniheldur virka efnið parasetamól. Til eru önnur lyf sem innihalda parasetamól. Munurinn á Paratabs retard og hefðbundnum parasetamól lyfjum er hinn svokallaði breytti losunarhraði sem þýðir að Paratabs retard virkar í lengri tíma. Breytti losunarhraðinn hefur þau áhrif að ekki þarf að taka lyfið eins oft og önnur hefðbundin parasetamól lyf.
Hvaða áhætta liggur á bakvið notkun Paratabs retard?
Of stór lyfjaskammtur af Paratabs retard getur valdið alvarlegri lifrarbilun eða dauða. Í mörgum tilfellum ofskömmtunar er óljóst hvort hún er af völdum parasetamóls með breyttan losunarhraða eða parasetamóls án forðaverkunar. Þetta gerir heilbrigðisstarfsfólki erfitt fyrir að ákveða hvers konar meðhöndlun er þörf á. Í ofskömmtunartilfellum skiptir máli hvort um parasetamól með breyttan losunarhraða er að ræða því það hefur áhrif á ákvarðanir heilbrigðisstarfsfólks s.s. hvenær og hve lengi á að gefa sjúklingnum móteitur.
Hefur ákvörðunin áhrif á önnur lyf sem innihalda parasetamól?
Ákvörðun um brottfall úr lyfjaskrám nær eingöngu til lyfja sem innihalda parasetamól með breyttan losunarhraða og hefur því ekki áhrif á önnur lyf sem innihalda parasetamól.
Sjá einnig: Frétt Lyfjastofnunar frá september 2017.