Heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð sem felur í sér takmarkanir á afhendingu lyfja. Henni er ætlað að koma í veg fyrir að fólk kaupi lausasölulyf í miklum mæli, og að leystar séu út margar afgreiðslur fjölnota lyfjaávísana samtímis eða með skömmu millibili. Heilbrigðisráðuneytið hefur jafnframt sent læknum og lyfjafræðingum bréf þar sem reglugerðarbreytingin er kynnt, og óskað eftir samvinnu um framkvæmdina.
Ákvæði til bráðabirgða
Reglugerðin er þriðja breyting á reglugerð nr. 1266/2017, um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja. Hún felur í sér ákvæði til bráðabirgða, sem koma á í veg fyrir að fleiri en ein lyfjaávísun á sama lyf og styrkleika sé gild hverju sinni í lyfjaávísunargáttinni. Jafnframt er kveðið á um að Lyfjastofnun geti takmarkað afgreiðslu lyfja þegar sérstakar ástæður sem varða almannaheill og lýðheilsu mæla með því. Reglugerðin hefur þegar tekið gildi, og gildir til 30. júní 2020.
Lyfjakaup í miklum mæli geta valdið lyfjaskorti
Brögð hafa verið að því að tiltekin lausasölulyf hafi verið keypt í miklum mæli. Einnig að margar afgreiðslur ávísanaskyldra lyfja hafi verið leystar út samtímis eða með skömmu millibili. Slík háttsemi getur valdið tjóni með því að skapa lyfjaskort, og þannig stefnt heilsu og jafnvel lífi fólks í hættu að óþörfu.
Lyfjabirgðir hafa verið auknar – birgðir nægar að mati yfirvalda
Lyfjabirgðir hafa verið auknar í landinu í kjölfar kórónaveirufalaldursins. Það er mat heilbrigðisyfirvalda að birgðir séu nægar, ef notkun er með svipuðum hætti og að jafnaði.
Lyfjastofnun og landlæknir hafa áður beint tilmælum til almennings um að hamstra ekki lyf. Enn skal brýnt fyrir fólki að kaupa ekki lyf í meira mæli en þörf krefur.