Risna Lyfjastofnunar vegna starfsmannahalds árið 2022 langt undir heimildum

Risna vegna gesta sama ár var engin, eða 0 krónur

Að gefnu tilefni vill Lyfjastofnun koma eftirfarandi á framfæri vegna þess sem kom fram í frétt Viðskiptablaðsins, 25. apríl 2023 og gefur ekki rétta mynd af bókhaldi Lyfjastofnunar.

Fram kemur í frétt Viðskiptablaðsins að risna hafi numið tæpum 13,2 milljónum árið 2022 hjá Lyfjastofnun. Þetta á ekki við rök að styðjast. Upplýsingarnar sem stuðst er við í umfjölluninni eru teknar af vefnum Opinberir reikningar ríkisins sem sýnir yfirlit yfir greidda reikninga ríkisstofnana á viðkomandi ári og gefur ekki rétta endanlega stöðu bókaðra lykla á uppgjörsári.

Lyfjastofnun vill benda á að það kemur ekki fram í þessu yfirliti að stór hluti fjárhæðarinnar var endurgreiddur og kemur því til lækkunar á risnulykli árið 2022.

Hið rétta er að bókhald Lyfjastofnunar árið 2022 sýnir að bókfærð risna það ár er samtals 2,3 milljónir. Þessi risna var framlag/risna til starfsmannafélags vegna tilfallandi viðburða starfsmanna, líkt og heimilt er skv. kafla 2.1 í skattmatsreglum nr. 1502/2021. Engin risna var bókfærð þar sem Lyfjastofnun var gestgjafi, eða 0 kr.

Þá er það undirstrikað að heimild til þess að bókfæra risnu fyrir starfsmenn, skv. matsfjárhæð Skattsins er margfalt hærri en það sem Lyfjastofnun bókfærði á árinu 2022.

Lyfjastofnun telur það skjóta skökku við að Viðskiptablaðið kjósi að leggja saman risnu til starfsmanna og aðra risnu í umfjöllun sinni þegar sérstaklega er tekið fram í fréttinni að risna í þágu starfsfólks telst ekki til bókaðrar risnu og án þess að kanna staðreyndir málsins til fulls.

Síðast uppfært: 1. júní 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat