Samanburðarúttekt á Lyfjastofnun fer fram í næstu viku

Undirbúningur fyrir sk. samanburðarúttekt á Lyfjastofnun (BEMA) hefur staðið yfir síðastliðna mánuði en úttektin fer fram í næstu viku. Hingað koma eftirlitsmenn frá Frakklandi, Króatíu og Þýskalandi auk sérfræðings frá Spáni, sem er í þjálfun og munu þeir taka út Lyfjastofnun  dagana 4.-6. júlí.

Samtök forstjóra lyfjastofnana EES standa reglulega fyrir samanburðarúttektum (benchmarking) á lyfjastofnunum á Evrópska efnahagssvæðinu sem á ensku nefnist Benchmarking of European Medicines Agencies. BEMA, sem er byggt á hugmyndafræði gæða- og árangursstjórnunar, er stjórnað af sérstökum stýrihópi á vegum forstöðumanna lyfjastofnana EES. Úttektirnar taka til allra þátta í starfsemi stofnananna.  Markmið þeirra er að auka traust í samvinnu þeirra á grundvelli samræmdra viðmiða.

Lyfjastofnun var áður tekin út árin 2005, 2009 og 2013. Niðurstöður úttektanna hafa sýnt að margt í starfsemi stofnunarinnar er vel gert og annað sem má bæta. Stofnunin hefur tekið stöðugum framförum frá því að fyrsta úttektin var gerð að mati úttektaraðila. Á skalanum 1-5 var Lyfjastofnun undir 3 í BEMA II (2009) en í BEMA III (2013) var stofnunin komin í 3,5 meðalskor sem var yfir Evrópumeðaltalinu 3,4. Árangurinn var yfir meðaltali í öllum árangursmælikvörðunum 14 (Key Performance Indicators, KPIs) nema í áhættustjórnun, áhættustýrðu eftirliti og lyfjagát.

Úttektin mun ekki hafa nein áhrif á afgreiðslutíma Lyfjastofnunar vikuna 3.-7. júlí.

Síðast uppfært: 30. júní 2017
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat