Samtök Norrænna lyfjafræðingafélaga mæla með Norrænni samvinnu á sviði rafrænna fylgiseðla lyfja

Samtök Norrænna lyfjafræðingafélaga (NFU) sendu frá sér yfirlýsingu á dögunum.

Samtök Norrænna lyfjafræðingafélaga (NFU) mæla með að Norðurlöndin vinni saman að því að þróa rafræna fylgiseðla fyrir lyf. Það er skoðun NFU að með því að fara frá pappírsfylgiseðlum yfir í rafræna fylgiseðla, muni öryggi sjúklinga aukast, minna verði um lyfjaskort og mögulega dragi úr sóun lyfja. Gengið er út frá því að rafrænn fylgiseðill innihaldi sömu upplýsingar og er að finna í pappírsfylgiseðli.

Að mati NFU munu rafrænir fylgiseðlar hafa jákvæð áhrif á öryggi sjúklinga með eftirfarandi hætti:

  • Tækifæri gefst til að uppfæra upplýsingar um lyf með skjótum og öruggum hætti í samræmi við nýjustu upplýsingar sem til eru.
  • Aðgengi fyrir sjónskerta eykst með möguleikanum að stækka letur.
  • Þá verður auðveldara að tengja og samþætta kerfi rafrænna fylgiseðla við önnur upplýsingakerfi sem eru notuð í heilbrigðisþjónustu.

NFU telur að jákvæð áhrif rafrænna fylgiseðla á lyfjaskort verði eftirtalin:

  • Mögulegt verður fyrir lönd að sameinast um lyfjapakkningar.
  • Hægt verður að tengja litla lyfjamarkaði við stærri markaði, t.d. á Norðurlöndunum.

Rafrænir fylgiseðlar munu hafa jákvæð áhrif á sóun lyfja með eftirfarandi hætti að mati NFU:

  • Það kemur fyrir að lyfjafyrirtækin þurfi að farga lyfjum vegna þess að villur leynast í fylgiseðli. Hversu mikið magn af lyfjum er fargað vegna þess er ekki vitað en innleiðing rafrænna fylgiseðla lyfja getur komið í veg fyrir slíka sóun.
  • Betri gæði sem fylgja rafrænum fylgiseðlum lyfja tryggja að óþarfi er að eyða lyfjum vegna skorts á upplýsingum.


NFU mælir með því að vinna við að lögfestingu rafræna fylgiseðla verði haldið áfram innan Norðurlandanna. Í ljósi þess að sífellt fleiri lyf fá markaðsleyfi hjá aðildarlöndum Lyfjastofnunar Evrópu (EMA), verður að mati NFU að nást samstarf um vinnu við rafræna fylgiseðla á vettvangi EMA. Löndin í Evrópu hafa mismunandi stöðu og getu til að taka í notkun og innleiða kerfi rafrænna fylgiseðla og telur NFU að Norðurlöndin séu hentugur vettvangur þar sem þróun og prófun á rafrænum fylgiseðlum geti farið fram.

Síðast uppfært: 29. september 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat