Sjúkrahúslyfjafræðingar spurðir um lyfjaskort

Evrópusamtök sjúkrahúslyfjafræðinga standa fyrir könnun um lyfjaskort á sjúkrahúsum dagana 19. mars–11. júní 2018.  Samtökin hafa tvívegis áður staðið fyrir slíkri könnun, árin 2013 og 2014 og telja mikilvægt að kortleggja vandann frekar svo finna megi lausnir.  

Varla þarf að fara mörgum orðum um að skorti tiltekin lyf á sjúkrahúsum í einhvern tíma, getur komið upp erfið og jafnvel alvarleg staða. Skorti það lyf sem best er talið henta í hverju tilviki, getur það leitt til þess að leita þurfi dýrari úrræða, eða það sem verra er, leiða sem skila ekki jafn góðum árangri. Þetta á sérstaklega við um lyf sem notuð eru á bráðalækningadeildum auk geðlyfja ýmissa, lyfja við flogaveiki, ónæmisbælandi  lyfja og krabbameinslyfja. Finna þurfi lausnir til að minnka líkur á eða koma í veg fyrir lyfjaskort, ekki hvað síst raunverulegan lyfjaskort, þegar ekkert lyf við tilteknum sjúkdómi er tiltækt. Með víðtækri könnun er hægt að sjá hvar skórinn kreppir og vinna að því í framhaldinu að leita lausna. 
 

Kortlagning lengra komin í Bandaríkjunum og Hollandi 
Í Bandaríkjunum og Hollandi hefur um all langt skeið verið unnið markvisst að því að komast að umfangi vandans og bregðast við honum. Slíkar upplýsingar hafði skort á Evrópuvísu og því var árin 2013 og  2014 staðið fyrir viðamiklum könnunum meðal sjúkrahúslyfjafræðinga álfunnar. Árið 2014 bárust svör frá rösklega 600 lyfjafræðingum í 36 löndum og 86% þeirra sögðust glíma við vanda sem tengdist lyfjaskorti á þeim tíma sem könnunin fór fram. 66% sögðust glíma daglega eða í viku hverri við vanda vegna lyfjaskorts, og í rúmlega helmingi tilvika var áætlað að um fimm vinnustundir á viku færu hjá starfsfólki sjúkrahúsapóteka í að takast á við lyfjaskort, fyrirsjáanlegan eða þegar upp kominn. Forseti Evrópusamtakanna sagði þegar þetta lá fyrir að vandinn væri stærri en svo að hvert land gæti glímt við hann eitt og sér. Takast yrði á við vandann þvert á landamæri.

Og nú hefur sams konar víðtækri könnun aftur verið hleypt af stokkunum. Stjórn Faghóps um sjúkrahúslyfjafræði innan Lyfjafræðingafélags Íslands hvetur þá sem málið varðar til að taka þátt í könnuninni.

Nánari upplýsingar og tengill á könnunina

Niðurstöður könnunarinnar 2014

Síðast uppfært: 21. mars 2018
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat