Skipulagsbreytingar hjá Lyfjastofnun

Nýr sviðsstjóri og nýr staðgengill forstjóra

Breyting verður á skipulagi Lyfjastofnunar frá og með deginum í dag og jafnhliða verða nokkrar mannabreytingar í stjórnendahópnum.

Að sögn Rúnu Hauksdóttur Hvannberg forstjóra Lyfjastofnunar hefur stofnunin staðið frammi fyrir óvæntum og flóknum aðstæðum af ýmsum toga síðustu misseri. Meðal annars auknu hlutverki á alþjóðlegum vettvangi, og sömuleiðis hér heima í kjölfar nýrra lyfjalaga sem tóku gildi í ársbyrjun 2021. Þetta var haft í huga í stefnumótunarvinnu sem fram fór á vordögum, og þegar við bættust fyrirsjáanlegar mannabreytingar á skrifstofu forstjóra, var eftir frekari greiningu ákveðið að skrifstofan yrði sérstakt svið með skýrara hlutverki og ábyrgð.

Skrifstofa forstjóra

Nýtt svið ber heitið skrifstofa forstjóra og verkefni þess eru mannauðsmál, erlent samstarf, lögfræðimál, persónuverndarmál og stefnumótun. Nýr sviðsstjóri er Guðrún Helga Hamar. Guðrún Helga er viðskiptafræðingur með MBA gráðu. Hún hefur mikla stjórnunarreynslu, sem og reynslu af alþjóðlegu samstarfi. Guðrún Helga starfaði um árabil hjá Arion banka og hafði þar m.a. yfirumsjón með verkefnastjórnun og stafrænni umbreytingu bankans. Hún hefur auk þess starfað hjá Háskólanum í Reykjavík, Dohop og víðar.

Guðrún Helga Hamar

Þeir stjórnendur sem nú hverfa frá skrifstofu forstjóra til annarra starfa eru Sindri Kristjánsson, yfirlögfræðingur og staðgengill forstjóra, og Harpa Þorláksdóttir mannauðsstjóri.

Nýr staðgengill forstjóra

Þórhallur Hákonarson verður nýr staðgengill forstjóra. Þórhallur hefur starfað hjá Lyfjastofnun um árabil, allt frá árinu 2008, lengst af sem fjármálastjóri en síðustu misseri sem sviðsstjóri fjármála- og rekstrarsviðs.

Þórhallur Hákonarson

Forstjóri vill koma á framfæri þökkum fyrir vel unnin störf til þeirra starfsmanna sem nú kveðja Lyfjastofnun, og býður nýjan sviðsstjóra velkominn til starfa.

Síðast uppfært: 16. ágúst 2022
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat