Talsverður fjöldi íslenskra mála í alþjóðlegri aðgerð

Europol stýrði alþjóðlegu aðgerðinni Operation Shield III á síðasta ári en hún beindist gegn ólöglegum lyfjum og steratengdum efnum. Tollgæslan og Lyfjastofnun áttu aðild að verkefninu

Alls tóku tuttugu og átta ríki þátt í aðgerðinni sem stóð yfir frá apríl til október á síðasta ári, með samvinnu lögreglu, tollayfirvalda og lyfjastofnana auk ýmissa fjölþjóðlegra stofnana. Tollgæslan og Lyfjastofnun tóku þátt í aðgerðinni hérlendis og nutu aðstoðar tengslafulltrúa Íslands hjá Europol.

Lyf að andvirði rúmlega 40 milljóna evra

Hald var lagt á lyf að andvirði rúmlega 40 milljóna evra á heimsvísu, fimmtíu og níu glæpahópar voru leystir upp, og tíu ólöglegum rannsóknarstofum lokað. Hérlendis var meðal annars lagt hald á steratengd efni, stinningarlyf, og sterk verkjalyf eins og oxíkontín.

Efni sem tengjast COVID-19 á undanhaldi

Enn freista alþjóðleg glæpasamtök þess að hagnast á COVID-19 faraldrinum, en athyglin sem beinist að öllu sem honum tengist, gerir að verkum að á brattann er að sækja. Stjórnvöld sem buðu borgurum landa sinna ókeypis bólusetningu gerðu glæpamönnum t.d. óhægt um vik að koma sviknum efnum á framfæri.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Europol.

Síðast uppfært: 21. febrúar 2023
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat