Þegar lyf er leyst út í apóteki

Lyfjafræðingar apóteka gegna mikilvægu hlutverki við að veita upplýsingar um notkun og meðhöndlun lyfja með það að markmiði að hámarka árangur lyfjameðferðar og auka lífsgæði þeirra sem nota lyf.

Í huga margra er e.t.v. ekki mikill munur á því að leysa út lyf í apóteki og kaupa matvöru í næstu verslun. Lyf eru hins vegar ekki eins og hver annar varningur, þau innihalda mikilvirk efni sem með rangri notkun eða meðhöndlun geta valdið heilsutjóni. Því er í löggjöf flestra ríkja að finna strangar reglur um framleiðslu, dreifingu og geymslu lyfja; dreifing á hér líka við um afgreiðslu og afhendingu lyfja í apóteki. Hérlendar reglur um lyf eru annars vegar evrópsk lyfjalöggjöf, hins vegar íslensk lyfjalög og reglugerðir.

Aukin fræðsla um lyfjanotkun meðal markmiða lyfjalaga

Ný lyfjalög tóku gildi 1. janúar sl. og leystu af hólmi fyrri lög sem verið höfðu við lýði í tuttugu og fimm ár. Í markmiðum nýju laganna er m.a. tekið fram að við verslun með lyf skal ætíð hafa í huga að lyfjadreifing er hluti heilbrigðisþjónustu - og hér má hafa í huga að lyfjafræðingar teljast til heilbrigðisstétta. Einnig er markmið með lögunum að tryggja eftir föngum gæði og öryggi lyfja og lyfjaþjónustu, og auka fræðslu um lyfjanotkun.

Lyfjafræðingar gegna mikilvægu hlutverki í apóteki

Lyfjafræðingar bera ábyrgð á afgreiðslu og afhendingu lyfja í apóteki og því sérfræðimati sem þar fer fram. Sérfræðimatið hefst um leið og beiðni hefur verið móttekin um lyf sem leysa skal út í apóteki samkvæmt ávísun í lyfseðlagátt. Í sérfræðimati lyfjafræðings felst t.d. að meta hvort rétt lyf hafi verið valið úr lyfjagátt, hvort hugsanlegt sé að misritun hafi átt sér stað við gerð lyfjaávísunar, til dæmis m.t.t. styrkleika. Lyfjafræðingur skal enn fremur staðfesta að ávísunin sé rétt út gefin og lögmæt.

Upplýsingagjöf er hluti af afhendingu lyfs

Þegar kemur að afhendingu lyfsins skal lyfjanotandi eða umboðsmaður hans fá ráðgjöf um lyfjameðferðina, s.s. helstu upplýsingar um geymslu og notkun lyfjanna. Lyfjafræðingur veitir einnig upplýsingar og ráðgjöf hvað varðar skammtastærð, milliverkanir og aukaverkanir enda telst upplýsingagjöf hluti af afhendingu lyfs samkvæmt skilgreiningu reglugerðar frá 2020 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja. Sú skilgreining er í samræmi við ákvæði 40. greinar nýju lyfjalaganna sem samþykkt voru um svipað leyti og reglugerðin var gefin út, í júlí 2020, en í lögunum segir m.a. að lyfsöluleyfishafa sé skylt að miðla upplýsingum um lyf og notkun þeirra. Um þetta ákvæði er fjallað í lögskýringargögnum á þann veg að það geti átt við fleiri lyfjafræðinga en eingöngu lyfsöluleyfishafann: „Vegna menntunar og hæfni er eðlilegt að gera þessa kröfu til lyfjafræðinga sem starfa í lyfjabúðum og engir betur til þess fallnir en þeir.“

Lyfjafræðingar gegna því mikilvægu og lögbundnu hlutverki í miðlun upplýsinga til þeirra sem lyfja þarfnast, með það að markmiði að árangur lyfjameðferðar verði sem bestur.

Síðast uppfært: 16. ágúst 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat