Þekktar aukaverkanir COVID-19 bóluefna er að finna í samþykktum lyfjatextum

Mikilvægt að þekkja muninn á raunverulegum fréttum og falsfréttum

Að gefnu tilefni bendir Lyfjastofnun á að í allri umfjöllun um tilkynningar vegna gruns um aukaverkun er mjög mikilvægt að fram komi að þegar tilkynningar berast Lyfjastofnun er ekki vitað hvort um orsakasamhengi milli bólusetningar og tilkynntra tilvika sé að ræða.

Skoðun á öllum tilkynningum er hluti af lyfjagátarkerfi Lyfjastofnunar, þar sem leitast er við að fá frekari upplýsingar um tilkynnt tilvik þegar upplýsingar sem geta varpað betra ljósi á tilvikin vantar. Tilkynningarnar eru síðan metnar ásamt öllum öðrum tilkynntum tilvikum í samevrópskum lyfjagátargagnagrunni (Eudravigilance), í samstarfi við aðrar stofnanir á EES-svæðinu og Lyfjastofnun Evrópu. Þannig er hægt að meta upplýsingar í hverju tilfelli fyrir sig en einnig skoða samnefnara á milli tilfellanna, en reynist mynstur svipað í tilkynntum tilfellum styður það við mat á orsakasambandi.

Þekktar aukaverkanir COVID-19 bóluefna

Allar upplýsingar um þekktar aukaverkanir er hægt að lesa um í samþykktum textum COVID-19 bóluefna sem eru aðgengilegir á vef Lyfjastofnunar. Fólk er sérstaklega hvatt til að tilkynna um grun um nýjar, óvæntar og alvarlegar aukaverkanir.

Mikilvægt að tilkynna grun um aukaverkun

Allir geta tilkynnt grun um aukaverkun á vef Lyfjastofnunar. Afar mikilvægt er að nota vefeyðublaðið svo gæta megi varúðar við meðferð persónuupplýsinga. Einnig til að tryggja að þær upplýsingar sem þörf er á skili sér.

Um aukaverkanir lyfja

Aukaverkanir eru óæskileg áhrif lyfs/bóluefnis. Öll bóluefni geta valdið aukaverkunum en alvarlegar aukaverkanir eru sjaldgæfar.  Aukaverkanatilkynningar hafa mikið vægi við að kortleggja áhættu vegna lyfja þegar þau fara í almenna notkun. Við höfum tekið saman ýmsar upplýsingar fyrir almenning um aukaverkanir af bóluefnum og eru þær aðgengilegar á vef Lyfjastofnunar. 

Mikilvægt að þekkja muninn á raunverulegum fréttum og falsfréttum

Lyfjastofnun bendir á gagnlegar upplýsingar Fjölmiðlanefndar sem unnar eru í samvinnu við Vísindavef Háskóla Íslands og Embætti landlæknis um hvernig þekkja má muninn á fréttum og falsfréttum. Á vef Fjölmiðlanefndar er fólk hvatt til þess að stoppa, hugsa og athuga hvort efnið sé sannleikanum samkvæmt áður en því er dreift.

Síðast uppfært: 28. maí 2021
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat