Til dýralækna: Mikilvægar öryggisupplýsingar vegna notkunar á Senvelgo hjá köttum

Þekkt áhætta á ketónblóðsýringu af völdum sykursýki í tengslum við notkun lyfsins hjá köttum með sykursýki

Í Evrópu hefur verið tilkynnt um alvarleg tilfelli af ketónblóðsýringu af völdum sykursýki í tengslum við notkun Senvelgo hjá köttum með sykursýki. Mikilvægt er að lyfið sé notað rétt til að lágmarka alvarlegar aukaverkanir lyfsins.

Senvelgo er notað til að draga úr blóðsykurshækkun hjá köttum með insúlínóháða sykursýki. Þess vegna er ekki víst að meðferð með Senvelgo henti öllum köttum, einkum ekki þeim sem þegar fá insúlín. Því er mikilvægt að vanda valið á dýrum. Kettir með sykursýki sem hafa fengið meðferð með insúlíni eru í aukinni hættu á að fá ketónblóðsýringu af völdum sykursýki og ketónmigu, samanborið við nýgreind dýr. Vegna þessa er mikilvægt að meta vandlega fyrirfram hvort meðferð með Senvelgo henti hverjum og einum ketti.

Áður en meðferð er hafin með Senvelgo þarf að skima fyrir ketónblóðsýringu af völdum sykursýki þar sem það er fylgikvilli sykursýki sem getur mögulega verið banvænn. Flest tilvik ketónblóðsýringar af völdum sykursýki komu fram 0-4 dögum eftir að meðferð var hafin.

Ef grunur leikur á ketónblóðsýringu af völdum sykursýki eða ketónmigu (eða ef staðfesting liggur fyrir):

  • Skal hætta meðferð með Senvelgo tafarlaust
  • Skal framkvæma viðeigandi rannsóknir og hefja viðeigandi meðferð tafarlaust (t.d. meðferð með insúlíni)

Mikilvægt er að dýralæknar upplýsi kattaeigendur um áhættuna á ketónblóðsýringu af völdum sykursýki og reyna að tryggja að eigendur geti fylgst náið með því hvort kötturinn fái ketónblóðsýringu af völdum sykursýki. Tafarlaust þarf að leita til dýralæknis ef ketón greinast eða vart verður við klínísk einkenni ketónblóðsýringar af völdum sykursýki.

Ráð til dýralækna

  • Upplýsið kattaeigendur um áhættuna á ketónblóðsýringu af völdum sykursýki
  • Metið vandlega fyrirfram hvort meðferð með Senvelgo henti hverjum og einum ketti
  • Framkvæmið skimun fyrir ketónum:
    • Áður en meðferð með Sevelgo er hafin
    • Daglega fyrstu 7 dagana á meðferð með Sevelgo
    • Þar á eftir á 1-3 daga fresti næstu vikuna
    • Auk þess ætti helst að skima fyrir ketónkornum á fyrstu tveimur vikunum
  • Hætta skal meðferð með Senvelgo tafarlaust ef grunur leikur á ketónblóðsýringu af völdum sykursýki eða ketónmigu (eða staðfesting á því liggur fyrir)
  • Framkvæma skal viðeigandi rannsóknir og hefja skal viðeigandi meðferð tafarlaust ef grunur leikur á ketónblóðsýringu af völdum sykursýki eða ketónmigu (eða ef staðfesting á því liggur fyrir)

Ráð til kattaeigenda

  • Mikilvægt er að þekkja einkenni ketónblóðsýringar af völdum sykursýki hjá köttum. Leitið ráða hjá dýralækni.
  • Eigendur katta á meðferð með Senvelgo þurfa að framkvæma skimun fyrir ketónum með þvagprufustrimlum í samráði við dýralækni á fyrstu tveimur vikunum:
    • Daglega fyrstu 7 dagana á meðferð með Sevelgo
    • Þar á eftir á 1-3 daga fresti næstu vikuna
  • Hætta skal meðferð með Senvelgo og leita tafarlaust til dýralæknis ef vart verður við lystarleysi, svefnhöfga, skyndilegt þyngdartap eða uppköst hjá kettinum eða ef ketónkorn koma fram í þvagi kattarins (t.d. þegar þvagprufustrimlar eru notaðir).
  • Tilkynnið grun um aukaverkanir af völdum Senvelgo til Lyfjastofnunar
  • Leitið ráða hjá dýralækni ef spurningar vegna notkunar á Senvelgo hjá köttum vakna

Bakgrunnsupplýsingar

Senvelgo 15 mg/ml mixtúra, lausn fyrir ketti fékk fyrst markaðsleyfi innan Evrópusambandsins (ESB) í nóvember 2023. Það inniheldur velagliflozin sem er hemill natríum-glúkósaferju 2 (SGLT-2) og er nýtt virkt efni til notkunar í dýralyfjum. SGLT-2 hemill virkar á annan hátt en insúlín og dregur úr blóðsykri með því að koma í veg fyrir endurfrásog glúkósa um nýru og hentar aðeins til notkunar hjá köttum sem geta enn framleitt nægilegt magn af eigin insúlíni. Þess vegna er ekki mælt með notkun SGLT-2 hemla fyrir alla ketti með sykursýki.

Á grundvelli tilkynninga um aukaverkanir í Evrópu, þar á meðal ketónblóðsýringu af völdum sykursýki og dauðsföll tók sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu um lyf fyrir dýr (CVMP) þá ákvörðun að upplýsa þurfi ávísandi dýralækna um mikilvægar öryggisupplýsingar um lyfið.

Tilkynning aukaverkana

Dýralæknar sem og eigendur katta eru hvattir til að tilkynna allar aukaverkanir, sem grunur er um að tengist notkun Senvelgo, til Lyfjastofnunar.

Nánari upplýsingar má finna í bréfi sem markaðsleyfishafi lyfsins hefur sent til starfandi dýralækna á Íslandi

Sjá einnig: Fylgiseðill og samantekt á eiginleikum lyfs

Síðast uppfært: 13. ágúst 2024
Var efnið hjálplegt Nei

Hvað þarf að laga?


LiveChat